Nýr kjarasamningur var undirritaður á Reyðarfirði 4. febrúar 2021 milli Alcoa Fjarðaáls, AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands. Samningurinn gildir í þrjú ár og er afturvirkur frá 1. mars 2020.
Helstu breytingar í nýjum samningi eru launahækkanir og vinnutímastytting, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um nýlega hjá hinum íslensku álverunum tveimur og í takt við Lífskjarasamninginn. Samningaferlið var langt meðal annars vegna aðstæðna í samfélaginu vegna Covid. Viðræður fóru fram undir stjórn Ríkissáttasemjara frá áramótum.
Næstu skref eru að félögin munu kynna samninginn formlega fyrir félagsmönnum sem síðan greiða um hann atkvæði.
Myndin er frá undirritun kjarasamningsins þar má m.a. sjá Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formann AFLs Starfsgreinafélags og Kristján Þórð Snæbjarnarson, formann Rafiðnaðarsambands Íslands ásamt ríkissáttasemjara og fulltrúum Alcoa.