Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Nýtt mánaðaryfirlit – Ósamræmi í fjármálastefnu og stjórnarsáttmála

Áform stjórnvalda eins og þau birtast annars vegar í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hins vegar í framlagðri tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu til ársins 2026 fara ekki saman í veigamiklum atriðum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um fjármálastefnuna og fjallað er um í nýjasta mánaðaryfirliti sviðs stefnumótunar og greininga.

Yfirlitið má nálgast í heild sinni hér.

Fjármálastefna er lögð fram í upphafi kjörtímabils. Hún er útfærð á hverju ári í fjármálaáætlun sem nær yfir fimm ára tímabil.

Í umsögn ASÍ er bent á að meginstefnumörkun þeirrar fjármálastefnu sem lögð var fyrir Alþingi í formi þingsályktunar í nóvember í fyrra sé sú að hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) verði stöðvuð eigi síðar en 2026. Eigi þetta markmið að verða að veruleika þurfi halli hins opinbera að minnka ár frá ári. Samkvæmt greinargerð með fjármálastefnu fer áætlaður halli úr tæplega 6% af VLF í ár í tæplega 1% undir lok tímabilsins.

Í greinargerðinni kemur skýrt fram að aukið aðhald mun fyrst og fremst koma fram á útgjaldahliðinni, þ.e. í gegnum niðurskurð. Í umsögn ASÍ segir að þetta merki að aðhaldið í stefnunni byggi á því að velferðarkerfið verði notað sem helsta hagstjórnartækið. Slík stefna geti aldrei orðið grundvöllur fyrir stöðugleika á vinnumarkaði eða til að ná markmiðum stjórnvalda um velsæld og úrbætur á sviði velferðarmála.

Jafnframt er í umsögninni vakin athygli á fyrirheitum stjórnvalda í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem birtur var 28. nóvember, tveimur dögum áður en fjármálastefna 2022-2026 var opinberuð. Þar er að finna áform um verulega styrkingu velferðarkerfsins sem sýnilega munu hafa aukin útgjöld í för með sér. Þannig segir í stjórnarsáttmálanum:

„Staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verður styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt. Við ætlum að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni… Horft verður til frekari eflingar almannaþjónustu og skattalækkana í samræmi við þróun ríkisfjármála.”

Í umsögn ASÍ er vakin athygli á því að tæpast fari saman hljóð og mynd þegar þessi tvö grundvallarskjöl um áform stjórnvalda eru lesin. Þannig segi í greinargerð með fjármálastefnu að á komandi árum verði „unnið að endurbótum á skattkerfinu þannig að tekjuöflun hins opinbera nægi til að standa undir verkefnum þess.“ Ekki sé ljóst hvernig stjórnvöld hyggist ná fram þeim markmiðum að efla almannaþjónustu um leið og skattar verði lækkaðir.

Mánaðaryfirlit sviðs stefnumótunar og greininga má finna hér.

Ítarlega umsögn ASÍ um fjármálastefnu 2022-2026 má finna hér.

Author

Tengdar fréttir