Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ræða forseta ASÍ á formannafundi

Kæru félagar,

Velkomin á formannafund ASÍ þar sem við fáum loksins að njóta þess að vera saman í einu rými eftir erfiðan vetur. Nú horfir til bjartari tíma, bólusetninga, meiri atvinnu og meiri samveru. Það hefur verið veruleg áskorun að halda uppi félagsstarfi í okkar hreyfingu síðan í byrjun síðasta árs en okkur hefur samt tekist það og fundið leiðir til að veita þjónustu, styðja okkar félaga og eiga samtal. En það er ekkert sem jafnast á við raunverulegan hitting og ég vonast til að geta heimsótt öll aðildarfélögin fyrir framhaldsþingið í haust.

Þegar harðnar á dalnum á vinnumarkaði er aldrei mikilvægara að vera með sterka verkalýðshreyfingu, sterk stéttarfélög og sterk heildarsamtök. Við erum í miðju slíku ástandi og þá er hollt að rifja upp kjarnann í tilvist okkar. Við byggjum á samtryggingu fyrst og fremst; það að launafólk bindist samtökum en þurfi ekki að standa eitt gegn ofurefli er ekki bara grundvöllur lífsgæða einstaklings heldur velferðar samfélagsins alls. Í þessu felst líka að baráttuna gegn hvers kyns félagslegum undirboðum og sniðgöngu á stéttarfélögum er barátta okkar allra, því undirboð hafa sterka tilhneigingu til að smitast hratt og örugglega til allra stétta. Sömuleiðis er það afar mikil skammsýni að höggva í okkar sameiginlegu grunnstoðir til hagsbóta fyrir þá sem eru betur settir eða fyrir einstaka hópa sem geta komið vel út tímabundið. Við höfum því miður alvarlegt dæmi um það eins og þegar verkamannabústaðirnir voru leystir upp gegn hörðum mótmælum verkalýðshreyfingarinnar. Launafólk  hefur heldur betur bitið úr nálinni með þá ákvörðun sem ég tel hafa verið skilgetið afkvæmið einstaklingshyggju og skort á samtryggingarhugsuninni.

Við höfum vítin til að varast í þeim löndum sem lengst hafa gengið gegn samtryggingu launafólks og fyrir nýfrjálshyggju. Kaupmáttur launa í Bandaríkjunum hefur farið minnkandi í jöfnu fylgi við niðurbrot stéttarfélaga. Það má ekki gleymast að niðurbrotið er ekki tilviljanakennt, það er skipulagt og til eru ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfa sig sérstaklega í slíku niðurbroti. Fólki er beint og óbeint bannað að vera í stéttarfélögum eða það sannfært um að stéttarfélög séu ekki til hagsbóta fyrir launafólk. Fyrirtæki hafa einnig tekið yfir stéttarfélög eða stofnað sín eigin félög. Gjarnan er viðkvæðið að hagsmunir atvinnurekenda og launafólks fari saman – að „í grunninn viljum við  öll það sama“ – og því þurfi ekki átök þar á milli. Auðvitað geta hagsmunir atvinnurekenda og launafólks farið saman í ýmsum atriðum, til dæmis gegn félagslegum undirboðum og fyrir öflugu endur- og símenntunarkerfi. En slík samlegð verður aðeins til þegar launafólk stendur styrkum fótum og á ekki allt undir einstaka atvinnurekanda. Grundvöllur lífskjara er sjálfstæði launafólks til að vera í stéttarfélögum óháð atvinnurekendum. Láta sverfa til stáls þegar það er nauðsynlegt og almennt reka sín félög og reisa sínar kröfur á forsendum launafólks, en ekki þeirra sem hagnast á vinnuaflinu. Þegar vegið er að þessum réttindum – eins og dæmi eru nú um á Íslandi – rísum við upp til varnar, öll sem eitt.

Tvö dæmi:

Kópur heitir félag sem þykist vera stéttarfélag. Það hefur enga kjarasamninga gert og er ekki stofnað af vinnandi stéttum. Félagið herjar á fólk sem er ekki alið upp við hina sterku íslensku verkalýðshreyfingu líkt og dagblað í leit að áskrifendum. En félagið bregst í stórum atriðum í vörn fyrir vinnandi fólk. Þegar farið er inn á heimasíðuna lítur þetta frekar út fyrir að vera tryggingafélag en stéttarfélag og því dýpra sem grafið er í starfsemina þeim mun ljósara verður að þetta félag getur ekki boðið upp á þau dýrmætu réttindi og umgjörð sem hin hefðbundna hreyfing getur. Þar með er fólk sem skráir sig í það félag að verða af réttindum sem vinnandi fólk hefur barist fyrir áratugum saman.

Annað dæmi er ÍFF – hið íslenska flugstéttarfélag – sem er ekkert annað en alvarleg aðför að réttindum alls vinnandi fólks. Í fundargerðum félagsins kemur fram að eftir að félagið, sem þá var félag flugmanna hjá WOW-air, var nánast gjaldþrota eftir fall flugfélagsins var ákveðið að breyta samþykktum þannig að hægt væri að semja líka fyrir flugfreyjur – og þjóna. Þetta var gert til að bjarga stéttarfélaginu frá gjaldþroti og freista þess að semja fyrir alla áhöfnina við endurreist flugfélag sem þá gekk undir heitinu WAB – eða we are back. Engin flugfreyja eða flugþjónn kom að þessari ákvörðun eins og fundargerðin staðfestir. Undirritaðir eru samningar áður en flugfreyjur og -þjónar gengu í félagið og „We Are Back“ byrjar að kynna sig fyrir fjárfestum sem „fyrsta íslenska lággjaldaflugfélagið“ og að launakostnaður flugstétta verði á bilinu 20-40% lægri en var hjá WOW air.

WAB er síðan breytt í Play sem tekur yfir þessa ömurlegu kjarasamninga og stærir sig af þeim. Við reyndum lengi að fá afrit af kjarasamningunum en ÍFF neitaði að láta þá af hendi. Sem betur fer höfum við þá nú undir höndum og vitum hvernig launakjörin líta út. Flugmennirnir seldu flugfreyjur og flugþjóna í örvæntingafullri tilraun til að skapa sér áframhaldandi atvinnu. Kynjavinkilinn er sláandi. Nú á að sækja aukið fjármagn og ég ætla rétt að vona að enginn lífeyrissjóður taki þátt í útboði nema að Play gangi til kjarasamninga á félagslegum grunni við raunverulegt stéttarfélag.

Það skal því engan undra að við stígum fast til jarðar í þessu máli og fyrir fundinum núna liggja drög að ályktun um gul stéttafélög. Við þurfum á öllum okkar sameinuðu kröftum að halda í þessari baráttu, að kjarasamningar séu gerðir á félagslegum grunni við stéttarfélög sem semja fyrir fólk sem á að vinna samkvæmt kjarasamningnum. Það er hið íslenska módel og það þurfum við að verja fram í rauðan dauðann enda er það grundvöllur lífskjara í landinu. Ef við gerum það ekki þá get ég sannfært ykkur um að fleiri fyrirtæki fylgja í kjölfarið og leika þennan sama leik og Play er að gera núna. Við höfum heldur ekki gleymt hótunum Icelandair síðasta sumar í erfiðum samningaviðræðum við flugfreyjur og flugþjóna. Í þessu samhengi vil ég líka hvetja okkur öll til að halda fókus í umræðunni því það verður reynt að rugla hana fram og til baka. Að vanda munu fulltrúar atvinnurekenda reyna að brjóta upp okkar samstöðu, hafa samband við einstaklinga innan okkar raða og reyna að tala þá á sitt band. Gegn þessu skulum við standa sameinuð.

Íslenskir kjarasamningar skulu gerðir fyrir fólk sem vinnur í hinu íslenska efnahagskerfi. Það er ekki ástæða til að lækka laun að þau séu lægri í öðrum löndum eða hjá erlendum flugfélögum. Ekki frekar en það er ástæða til að lækka laun í íslenskum fataiðnaði af því það eru lægri laun í Bangladesh. Við sem búum hér á landi erum með útgjöld sem laun hér á landi eiga að duga fyrir – punktur!!

Kæru félagar,

Í síðustu viku héldu ASÍ og BSRB málþing um einkavæðingu, eða öllu heldur arðvæðingu, í öldrunarþjónustu. Við fengum prófessor Szebehely, frá Svíþjóð, til að ræða reynsluna þar og ein setning sem hún sagði situr ennþá í mér: Það varð pólitísk breyting uppúr 1990 þegar hætt var að líta á fólk sem borgara með réttindi og farið að líta á fólk sem viðskiptavini í heilbrigðisþjónustunni. Fram að þessari breytingu var grundvallarhugmyndafræðin sú að allir skyldu hafa rétt á sömu góðu þjónustunni óháð fjárhag. Þetta er hugmyndafræði sem við þekkjum vel úr okkar baráttu, ekki síst á húsnæðismarkaðnum, í menntakerfinu og í velferðarþjónustu. Hvað gerist svo þegar farið verður að líta á fólk sem viðskiptavini en ekki borgara, jú krafan um að þú sem einstaklingur getir borgað þig fram fyrir röðina og keypt aukna og betri þjónustu verður áberandi. Þetta eru þrátt fyrir allt frjáls viðskipti ekki satt? Nei – grunnþjónusta fyrir alla eru ekki frjáls viðskipti. Og þegar við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda erum við ekki neytendur á markaði sem veljum hvort okkur langar frekar í jarðaberjaís eða súkkulaðiís þann daginn.

Þetta er þróun sem leiðir til þess að grunnþjónustustigið lækkar, rof verður á milli þeirra stofnana sem gera vel við fólk og þeirra sem lág- og millitekjuhópar þurfa að sætta sig við. Þau sem ekki geta greitt fyrir bað tvisvar í viku þurfa að sætta sig við bað einu sinni í viku og jafnvel sjaldnar. Þau sem ekki geta greitt fyrir mjaðmaskiptaaðgerð þurfa að þjást í fleiri mánuði en aðrir. Þau sem ekki geta greitt fyrir betri mat fá skyr í kvöldmat. Og hvers vegna að stoppa þar? Er ekki allt í lagi að sum börn fái betri menntun en önnur? Þetta er módel nýfrjálshyggjunnar. Hún ætti að vera dauð, svo skaðleg hefur hún verið, en í umræðu um öldrunarþjónustu á Íslandi og reyndar heilbrigðisþjónustu almennt lifa þessar hugmyndir góðu lífi.  Kjör vinnandi fólks hanga líka á spýtunni, því ef þú ætlar að ná arði út úr almannaþjónustu er fyrsta skrefið að vera með minni mönnun, verr menntað starfsfólk, fólk á tímakaupi sem skortir sérhæfingu. Það er ódýrara og þannig er hægt að skapa arðinn sem fjárfestarnir krefjast. Það er ekki endilega gert með beinum hætti heldur er það fóðrað í gegnum önnur félög sem eiga húsnæðið sem starfsemin fer fram í. Leigan er há, starfsemin sjálf sýnir engan hagnað en arðurinn er tekinn út í gegnum hagnað fasteigafélagsins. Nicholas Shaxson, sem er einn þeirra fyrirlesara sem hafa talað í veffundarröðinni um réttu leiðna út í kreppunni, hefur fjallað um þetta í skrifum sínum. Hann hefur sýnt fram á hvernig almannafé sem á að fjármagna grunninnviði samfélagsins endar í skattskjólum í gegnum gríðarlega flókin eignatengsl með tilheyrandi skúffufyrirtækjum.

Við skulum aldrei vanmeta hugmyndarflug kapítalista til að maka krókinn á kostnað skattgreiðenda, þeirra sem þurfa þjónustu eða vinnandi fólks.

Okkar krafa er einföld: grunnþjónusta á að vera gjaldfrjáls og almenn. Við greiðum sameiginlega innviði með sköttum og þar náum við í fjármagnið frá þeim sem eru aflögufærir.

Vörn okkar er krafan um góða þjónustu fyrir allan almenning og skiptir þá ekki máli hvort þú ert láglaunamanneskja eða hefur eitthvað umleikis. Að slá af þeim kröfum er að slá af kröfum til handa þeim sem höllum fæti standa og þegar fram í sækir að slá af kröfum fyrir okkur öll.

Kæru félagar,

Þetta hefur verið erfiður vetur fyrir vinnandi fólk. Tæplega 18 þúsund voru á atvinnuleysisskrá í lok maí og þótt fækki á skránni dag frá degi þá er þetta miklu alvarlegri staða en við höfum áður séð. Rúmlega sex þúsund manns hafa leitað vinnu í meira en ár og það er alvarleg staða á mörgum heimilum þar sem tekjufall hefur orðið mikið. Það er því ömurlegt að heyra raddir um að hér séu bætur of háar og hvatinn til vinnu of lítill. Það er álíka fyrirlitning sem felst í þessu eins og þegar atvinnurekendur beinlínis unnu gegn því að hækka atvinnuleysisbætur í upphafi niðursveiflunnar. Unnu gegn því að tryggja lágmarksafkomu fólks á tímum þar sem enga vinnu var að fá. Í þeirri umræðu sem nú stendur kemur líka fram viðhorf um að launafólk eigi að vera eins og einhver lagervara, sem hægt er að sækja í bunkum um leið og hentar. Þetta er hættulegt viðhorf og engum til framdráttar þegar fram í sækir. Það þarf að vanda til ráðninga, gera þær af virðingu og skilningi á því að fólk hefur misjafna reynslu, menntun og möguleika til að sinna ólíkum störfum. Fólk er ekki búfénaður eða vélmenni. Ég hef líka heyrt frá atvinnurekendum sem gengur ljómandi vel að ráða fólk til starfa, gera það almennilega og ætla ekki að tjalda til einnar nætur í ráðningum. Þá er rétt að minna á að atvinnurekendur hafa fengið myndarlegan stuðning til að viðhalda ráðningasamböndum, það skyldi þó ekki vera að það hafi reynst heillavænlegasta leiðin þegar á reyndi?

Í september komandi er komið að endurskoðun kjarasamninga sem annars gilda til loka árs 2022. Endurskoðunin kemur á sama tíma og gengið er til þingkosninga sem er sérstakt en varpar líka ljósi á forsendur samninganna sem út af standa, nefnilega loforð stjórnvalda. Ég fer betur yfir það á eftir undir þeim dagskrárlið en það eru óneitanlega vonbrigði að ekki tókst að leiða stórmál sem varða aðbúnað vinnandi fólks til lykta. Það er ekki síst þess vegna sem er gott að við hittumst og ræðum málin hér í dag því haustið mun fela í sér ýmsar áskoranir svo ekki sé meira sagt.

En kæru félagar, nýtum þennan tíma sem við eigum saman í dag vel og ég hvet sem flesta til að láta skoðun sína í ljós á þessum vettvangi. Hér er rétti staðurinn fyrir deiluefnin samhliða því að við skerpum á öllu því sem okkur sameinar. Ærin eru verkefnin eins og fyrri daginn en munum að árangurinn ræðst af samstöðu okkar og samtryggingu og þaðan kemur slagkrafturinn!

Ég segi fundinn settan og við göngum til dagskrár.

Til að auðvelda okkur öllum þátttöku í umræðunni vil ég leggja til að Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og margreyndur fundarstjóri stýri þessum fundi og legg það hér með fyrir fundinn.

Tengdar fréttir