Ávarp Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, forseta
Alþýðusambands Íslands, á framhaldsþingi þess 27. apríl 2023
Ágætu þingfulltrúar,
Verið öll velkomin til þessa framhalds 45. þings ASÍ.
Við komum hér saman við erfiðar aðstæður og lifum á tímum mikillar óvissu. Stríð geisar enn í Evrópu og því miður er ekkert sem bendir til að þeim hryllingi ljúki í fyrirsjáanlegri framtíð. Þessum átökum fylgir ný og að öllu leyti myrkari heimssýn. Á stundum virðist sem veröldin sjálf sé á heljarþröm og víða ríkir svæðisbundin spenna sem leitt getur til vopnaskaks með skömmum fyrirvara.
Okkur er sagt að ógnin sé slík að auka þurfi umsvif vígtóla í okkar næsta nágrenni og að byggja þurfi upp varnargetu í okkar vopnlausa samfélagi. Enginn veit hvar og hvernig þeirri vegferð lýkur en hún hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni og kalla á gagnrýna hugsun fremur en doða og fylgispekt.
Óvissan sem ríkir hér innanlands er blessunarlega af öðrum toga. En rétt eins og austur í álfu er hún mannanna verk. Erlendis skapa fjandsamleg samskipti ríkja spennu, hér er það samband valdhafa og almennings.
Ég þykist viss um að fleiri en ég velti því fyrir sér hvort svo sé komið að íslenska stjórnmálastéttin deili ekki lengur kjörum með almenningi í landinu. Um það hálaunafólk sem nú stjórnar samfélagi okkar gilda sérreglur í flestum efnum. Það nýtur skattleysis á tilteknum sviðum, lífeyrisréttinda langt umfram launafólk, lengri leyfa en almenningur og alls kyns greiðslna og fríðinda sem bera hugviti og sköpunargáfu vitni.
Kannanir sýna að traust almennings í garð Alþingis og fleiri grunnstofnana samfélagsins fer nú hratt minnkandi. Hvað veldur þessu – hefur orðið einhvers konar rof í sambandi ráðafólks og almennings? Er ekki furðulegt að þetta mikla vantraust almennings í garð samkundu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar fái enga umræðu sem heitið getur?
Er þarna komin skýring á því algjöra sinnuleysi gagnvart afkomu launafólks sem einkennt hefur framgöngu stjórnvalda síðustu misserin? Verðbólga, vaxtahækkanir og minnkandi kaupmáttur hafa engin viðbrögð vakið.
Á meðan stjórnvöld í nágrannaríkjum hafa gripið til margháttaðra aðgerða til að milda áhrif afkomukreppunnar hefur ríkisstjórn Íslands beinlínis dýpkað hana með skatta- og gjaldahækkunum. Hálaunafólkið í pólitíkinni finnur hins vegar ekki fyrir þeim. Hefur eitthvað verið sótt í vasa þeirra ríku? Nei þunginn leggst á okkar fólk sem er í verstu stöðunni.
Bein inngrip t.a.m. í formi skattalækkana á eldsneyti og matvöru hefur ekki mátt ræða. Þess í stað hefur ríkisstjórnin hróflað saman lítt útfærðri “fjármálaáætlun” sem svo er kölluð en er að stærstum hluta froða. Ekkert er þar að finna sem bætt getur hag heimila landsins á næstu mánuðum; engar beinar aðgerðir til að minnka verðbólgu, engin viðbrögð við verðhækkunum, ekkert til að bæta úr fjársvelti tilfærslukerfa, engin áform um að bregðast við miklum vaxtamun og okri banka, ekkert um skattlagningu ofurlauna og fjármagnstekna og auðvitað ekkert um að þjóðin eigi að fá notið afraksturs auðlinda sinna.
Þetta er kunnuglegt, stjórnmálamenn tala, leggja fram áætlanir og láta taka af sér myndir. Síðan gerist – ekkert.
Verkalýðshreyfingin hefur lengi haldið fram því sjónarmiði að örugg búseta – húsnæðisöryggi – falli undir mannréttindi. Telja eigi húsnæði nauðsyn en ekki fjárfestingu. Við þetta sjónarmið er mikill stuðningur í samfélaginu.
Við höfum sagt að húsnæðiskerfið eigi að þjóna fólkinu en ekki auðmagninu. Við höfum kynnt margvíslegar tillögur um hvernig slík kerfisbreyting gæti litið út; tómthúsgjald, leigubremsu og fleira. Ekkert af þessu hefur þótt koma til greina. Viðkvæðið er að ekki megi takmarka frelsi fjármagnsins!
Nú er deginum ljósara að í algjört óefni stefnir í húsnæðismálum.
Seðlabankinn hefur ítrekað hækkað vexti með hrikalegum áhrifum fyrir afkomu fjölda fólks. Þessi U-beygja Seðlabankans veldur því að fleiri íbúðakaupendur neyðast til að leita skjóls í verðtryggðum húsnæðislánum með tilheyrandi skuldafjötrum og eignaleysi.
Á næstu misserum mun greiðslubyrði margra aukast gríðarlega þegar breytilegir vextir óverðtryggðra lána verða uppfærðir. Verðbólga og vaxtahækkanir rata oft beint inn í leiguverð húsnæðis enda eiga margir leigjendur í miklum fjárhagserfiðleikum. Vaxtastefna Seðlabanka Íslands hefur beðið skipbrot og algjör óvissa gildir um framhaldið. Viðbrögð ríkisstjórnar Íslands eru algjört sinnuleysi enda er hálaunafólkið á þingi og í ráðuneytunum með allt sitt á þurru.
Við þetta bætast miklar verðhækkanir nauðsynja og húsnæðisskortur sem bitnar verst á þeim sem búa við lökustu kjörin; ungu fólki, einstæðum foreldrum, öryrkjum, kaupendum fyrstu fasteignar, aðfluttu verkafólki og leigjendum. Margt launafólk býr í atvinnuhúsnæði við lífshættulegar aðstæður. Því mun fjölga á næstunni og nákvæmlega ekkert bendir til að brugðist verði við þessari skelfilegu stöðu.
Við núverandi aðstæður sé ég ekki hvernig samfélagið ætlar að tryggja aukið framboð húsnæðis þrátt fyrir yfirlýsingar og myndatökur. Nú stefnir í mikinn samdrátt í nýbyggingum. Fjármagnskostnaðurinn er svo mikill að markaðurinn ræður ekki við verðið og er við að botnfrjósa. Við bætist að mörg sveitarfélög hafa ekki getað staðið við loforð um að leggja fram lóðir undir íbúðarhúsnæði eins undarlegt og það nú er.
Þetta er sama sagan. Stjórnmálamenn masa, skrifa undir yfirlýsingar og láta taka af sér ljósmyndir. Síðan gerist – ekkert.
Við höfum barist fyrir bættri réttarstöðu launafólks á vinnumarkaði. Þar hefur borið einna hæst félagsleg undirboð og hreinn launaþjófnaður. Þessi sjónarmið okkar hafa fengið ágætar undirtektir og kannski ekki við öðru að búast. Fáir treysta sér til að mæla opinberlega með því að brotið sé vísvitandi á launafólki, því þrælað út fyrir sem lægst laun. Í mínum huga er ljóst að breyta þarf lögum með áherslur launafólks að leiðarljósi.
Við höfum bent á að innviðir landsins séu veikburða og bregðast þurfi við mikilli og örri fjölgun landsmanna sem nær eingöngu má rekja til aðflutts launafólks. Tilviljanakennd umræða fer fram um vanda heilbrigðiskerfisins, samgöngur og vegamál, og öllum má vera ljóst að menntakerfið hefur ekki verið lagað að þörfum nútímans t.d. hvað iðnmenntun varðar að ekki sé minnst á þann mikla fjölda fólks af erlendum uppruna sem hér dvelst.
Já, rétt til getið. Viljayfirlýsingar, undirritanir, myndatökur og síðan gerist – ekkert.
Ágætu félagar,
Hvernig skýrum við þau stóru dæmi sem ég hef hér stuttlega rakið um algjört sinnu- og áhugaleysi valdhafa um afkomu, þarfir og réttindi almennings? Er það á einhvern hátt óeðlilegt eða ósanngjarnt að velta því fyrir sér hvort skýringin sé sú að valdhafar deili ekki kjörum með almenningi í landinu? Er þarna ljóslifandi komin samtryggingin og sjálftakan sem Vilmundur heitinn Gylfason gerði að miðpunkti baráttu sinnar fyrir pólitískri siðvæðingu í samfélaginu fyrir 40 árum eða svo? Hefur sérhagsmunagæslan ef til vill náð nýju stigi?
Ég þykist ekki hafa skýr svör við þessum spurningum en tel sýnt að almenningur eigi heimtingu á ítarlegri greiningu á kjörum stjórnmálamanna og þeim sérreglum sem um þá gilda.
Kæru þingfulltrúar,
Við þekkjum öll þá atburðarás á þingi okkar síðasta haust sem leiddi til þess að við erum hér saman komin. Sundrung og átök leiddu til sprengingar. Frá því ég steig mín fyrstu spor á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar hef ég verið sannfærður um gildi samstöðu í baráttu okkar. Ég hef nú öðlast djúpa sannfæringu fyrir því að við stöndum á vegamótum í verkalýðsbaráttunni og bresti samstaða okkar kunni það hafa hrikalegar afleiðingar fyrir það launafólk sem við erum í forsvari fyrir og samfélagið allt.
Verkalýðshreyfingin er stærsta afl umbóta og framfara á Íslandi. Framundan eru gríðarlegar áskoranir fyrir samfélag okkar sem kalla á samstöðu og styrk, örugglega langt umfram það sem við höfum þekkt á síðustu árum ef ekki áratugum. Ég hef hér nefnt nokkur risastór málefni þar sem augljóslega stefnir í algjört óefni og sennilega réttnefnt neyðarástand. Sú upptalning er ekki tæmandi en nægir vonandi til að bregða ljósi á þau erfiðu og umfangsmiklu verkefni sem fram undan eru. Þar verður verkalýðshreyfingin að ganga í fararbroddi því án aðkomu hennar gerist ekkert. Um það þarf enginn að efast.
Gleymum því ekki að gegn okkur standa öfl sem nýta sérhvern ágreining í okkar röðum til að veikja hreyfingu launafólks. Þingmenn stærsta stjórnmálaflokks landsins lögðu síðasta haust fram frumvarp á þingi sem hefur það markmið eitt að rústa sjálfum grundvelli verkalýðshreyfingarinnar. Og þeir fóru ekki dult með þann ásetning sinn. Nú reyna þessir sömu varðhundar sérhagsmuna og auðmagns að knýja fram breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til þess að veikja réttindi okkar og úrræði. Já, þegar kemur að því að veitast að verkalýðshreyfingunni skortir þetta fólk hvorki afl né áhuga. Við skulum búa okkur undir frekari árásir úr þeirri átt.
Kæru vinir,
Nú eru um átta mánuðir liðnir frá því að ég tók mjög óvænt við embætti forseta Alþýðusambands Íslands. Mér er það mikill heiður að hafa farið fyrir þessu rúmlega hundrað ára gamla og stórmerka sambandi launafólks. Þetta hefur verið krefjandi tími en jafnframt ánægjulegur og lærdómsríkur. Nú þegar ég kveð þetta embætti þakka ég ykkur öllum og starfsfólki ASÍ kærlega fyrir gott samstarf.
Í mínu starfi sem forseti ASÍ hef ég verið talsmaður sátta og ég hef reynt að beita mér í því skyni að efla samstöðu okkar. Ágreiningur er eðlilegur í svo stórum samtökum og hér mætist svo sannarlega ekki skoðanalaust fólk. Það er gott og það er heilbrigt að fram fari lífleg skoðanaskipti innan vébanda okkar stóru, lýðræðislegu hreyfingar.
En missum ekki sjónar á ábyrgð okkar og hlutverki. Við erum á vegamótum, um það er ég sannfærður og því verða mín síðustu orð þessi: stöndum saman, mætum upplausn og óvissu með staðfestu og einingu, uppfyllum skyldur okkar sem samfélagslegt umbótaafl, leyfum ekki ágreiningi að draga úr orku okkar og elju þjóðinni til heilla því annars er raunveruleg hætta á að ábyrgðarlaus sérhagsmunagæsla og þjónkun við auðmagnið valdi hér miklum og líklega óbætanlegum skaða.
Ég óska ykkur góðs gengis í ykkar mikilvægu störfum og segi framhaldsþing Alþýðusambandsins sett.
Þakka ykkur fyrir.