Atvinnulausum fjölgaði mikið í apríl þegar 7,5% vinnuaflsins var í almenna bótakerfi Vinnumálastofnunar. Jókst almennt atvinnuleysi um 1,8% milli mánaða en það var 5,7% í mars. Þá voru 10,3% vinnuafls í minnkuðu starfshlutfalli í apríl.
Fjöldi hópupsagna var í apríl þegar um 5.800 manns var sagt upp hjá 85 fyrirtækjum. Megnið af þeim voru í ferðaþjónustu (85%).
Spá Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi verði minna í maí eða 7,2% í fullu atvinnuleysi og 7,6% á hlutabótum.
Höggið er þyngst á Suðurnesjum þar sem almennt atvinnuleysi var 11,2% og 14% voru skráðir í minnkað starfshlutfall.
Í lok apríl voru 5.706 erlendir ríkisborgara atvinnulausir og samsvarar fjöldinn 16% atvinnuleysi meðal þeirra.