Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ, FFÍ, SA og Icelandair

Icelandair, Flugfreyjufélag Íslands, ASÍ og SA sendu í dag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að aðilar séu sammála um að fara eftir leikreglum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Með yfirlýsingunni gangast Icelandair og SA við því að framganga Icelandair sl. sumar, þar sem flugfreyjum og flugþjónum var sagt upp störfum í miðri kjaradeilu, hafi brotið í bága við samskiptareglur á vinnumarkaði.

Jafnframt kemur fram að Icelandair telji nauðsynlegt að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks sem tryggi frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum. Þá skuldbinda aðilar sig til að leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli og munu Flugfreyjufélag Íslands og ASÍ falla frá því að draga Icelandair fyrir Félagsdóm vegna brota á 4., 11. og 19.gr. laga nr. 80/1938.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:
„Í nýafstaðinni kjaradeilu beitti Icelandair, með stuðningi SA, brögðum sem hafa ekki sést á Íslandi áratugum saman en þekkjast víða erlendis og hafa það að markmiði að brjóta niður stéttarfélög og samstöðu launafólks. Með þessari yfirlýsingu er gengist við því að slíkar aðferðir eigi sér ekki pláss á íslenskum vinnumarkaði. Ég fagna því að hér hafi náðst niðurstaða aðila í milli án þess að fara fyrir dóm. Það er nauðsynlegt fyrir alla að farið sé eftir þeim formlegu og óformlegu leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.“

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Sameiginleg yfirlýsing Icelandair Group, Samtaka atvinnulífsins, Flugfreyjufélags Íslands og Alþýðusamband Íslands
Aðilar eru sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar og sem koma fram í lögum nr. 80/1938.

Þau viðbrögð Icelandair, með stuðningi SA, þegar félagið taldi vonlaust að ná árangri í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum þann 17.7.2020 eru hörmuð enda ekki í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa. Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum.

Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli.
Með yfirlýsingu þessari eru aðilar sammála um að með henni ljúki öllum deilum milli þeirra um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17.7 2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands

Author

Tengdar fréttir