Finnbjörn A. Hermannsson skrifar:
Verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir afar krefjandi verkefni nú þegar líður að lokum ársins 2023. Kjarasamningar losna í lok janúar og ljóst er að erfitt verður að leiða viðræður til ásættanlegra lykta. Aðstæður eru um flest óhagfelldar; mikil verðbólga, hátt vaxtastig, rýrnandi kaupmáttur, almenn dýrtíð. Við bætist síðan algjört ófremdarástand í húsnæðismálum sem stjórnvöld virðast ekki ráða við að leysa auk þess sem burðarstoðir velferðarkerfisins hafa markvisst verið holaðar að innan á undan liðnum árum.
Óhjákvæmilegt er að tekið verði á öllum þessum þáttum í komandi kjaraviðræðum.
Hvert ber ábyrgð á stöðugleikanum?
Sem fyrr beinist kastljósið að launafólki og því er ætlað að bera ábyrgð á stöðugleikanum sem hvorki ríkisstjórn eða Seðlabanki virðast fær um að ná. Því er ekki að neita að krefjandi aðstæður hafa ríkt í efnahagsmálum undanfarin ár. Húsnæðisbóla, alþjóðleg verðþróun og mikil þensla hafa haft gríðarleg áhrif á verðlag hér á landi, verðbólga hefur verið yfir 7,5% í 19 mánuði. Þáttur launa virðist vera sá eini sem fær umræðu. Á sama tíma er það rétt að launahækkanir hafa verið meiri en í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Það kemur því mörgum á óvart að hlutfall launa af verðmætasköpun hefur lækkað frá 2019. Verðmætasköpun í atvinnulífinu hefur einfaldlega staðið undir launahækkunum síðustu ára og rúmlega það.
Þó má velta því upp hvort mögulegt hafi verið fyrir kjarasamninga að bremsa hagkerfið af þegar Seðlabankinn blés í húsnæðisbólu og stjórnvöld sátu aðgerðalaus hjá á meðan vöxtur ferðaþjónustan jók þenslu. Þessi þensla birtist öllum, á vinnumarkaði, á húsnæðismarkaði og í hagkerfinu öllu. Sagan segir að svo sé ekki, við slíkar aðstæður munu laun hækka. Ákveðnir hópar myndu sækja launahækkanir í gegnum launaskrið en aðrir sætu eftir.
Verðbólga mælist 8% um þessar mundir og nýlegar tölur úr þjóðhagsreikningum benda til þess að hratt kólni í hagkerfinu. Áhrif af vaxtahækkunum Seðlabankans sjást meðal annars í minni einkaneyslu heimila og samdrætti í íbúðafjárfestingu. Á móti er ekki að sjá að peningastefnan hafi haft áhrif á vöxt ferðaþjónustunnar. Aðstæður eru um margt líkar þeim sem sköpuðust fyrir efnahagshrunið, stjórnvöld blésu í húsnæðisbólu og kyntu undir þenslu og gerðu þá kröfu að launafólk eitt myndi bera ábyrgð á stöðugleikanum.
Neyðarástand í húsnæðismálum
Innan verkalýðshreyfingarinnar ríkir samstaða um að neyðarástand í húsnæðismálum landsmanna sé eitt stærsta verkefni komandi kjarasamninga og ljóst er, að á þau verður lögð þung áhersla í viðræðum við fulltrúa ríkisvaldsins. Í því efni verður að horfa til bráðaaðgerða til að bregðast við margvíslegum birtingamyndum vandans; gríðarlega háu húsnæðisverði, lóðaskorti, háu vaxtastigi sem dregur stórlega úr framkvæmdum, versnandi hag leigjenda o.fl.
Til lengri tíma litið er ljóst að taka verður allt húsnæðiskerfið í landinu til endurskoðunar hvort sem litið er til framboðs, leigumarkaðar eða húsnæðislánakerfisins. Á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar er ríkur vilji til þess að smíðað verði nýtt kerfi og er einkum horft til Danmerkur í þeim efnum. Stjórnmálamenn hafa gjörsamlega brugðist umbjóðendum sínum á þessu mikilvæga sviði og samfélag sem ræður ekki við það grunnverkefni að gera borgurunum kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið hlýtur að fá falleinkunn.
Minni kaupmáttur, þyngri framfærsla
Síðustu vikur hefur verkalýðshreyfingin beint athygli að boðuðum gjaldskrárbreytingum sveitarfélaga nú um áramótin. Þessar aðgerðir eru ekki fallnar til að vinna gegn verðbólgu. Þvert á móti munu þær blása í glæður verðbólgu og þar með auka álögur á skuldsett heimili. Draga þarf lærdóm af neikvæðum áhrifum gjaldahækkana á verðbólgu í byrjun þessa árs.
Ef einhver innistæða er á bakvið þau ummæli ráðamanna að það sé sameiginlegt verkefni hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins að takast á við verðbólguna er tímabært að efndir fylgi orðum.
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 gefur fá tilefni til bjartsýni. Í því birtist dapurleg samfélagssýn ráðandi stjórnmálamanna í landinu. Vaxtabætur minnka, barnabætur minnka, húsnæðisbætur minnka. Álögur á almenning verða stórauknar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og erfiðari framfærslu.
Frumvarpið lýsir óverjandi forgangsröðun.
Líkt og áður er allri tekjuöflun ríkisins beint að almenningi með nýjum sköttum, hækkun krónutöluskatta og gjalda. Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram ítarlegar tillögur um nýtt og sanngjarnt skattkerfi í stað þess að hið opinbera seilist sífellt dýpra í vasa launafólks. Nú er svo komið að við þetta óhóf í skattlagningu gagnvart almenningi í landinu verður ekki lengur unað. Tímabært er að byrðunum verði dreift og að valdar atvinnugreinar, fyrirtæki og fjármagnseigendur greiði eðlilegan skerf til samfélagsins í stað þess að njóta “friðhelgi” af hálfu stjórnmálamanna. Þetta er ekki einungis réttlætismál heldur einnig efnahagsmál, staðreyndin er að gríðarlegur umframhagnaður ákveðinna atvinnugreina ýtir undir launakröfur, svigrúmið er einfaldlega nægt.
Endurreisn stuðningskerfa
Á síðustu árum og áratugum hafa tilfærslukerfi í þágu heimilanna verið kerfisbundið veikt. Þetta hefur leitt til þess að skattbyrði launafólks hefur farið vaxandi og tekjulægri heimili eiga erfiðara með að ná endum saman. Stefnan hefur verið rökstudd með þeim hætti að húsnæðisstuðningur hafi verið færður í önnur úrræði, m.a. skattfrjálsa niðurgreiðslu lána og stofnframlög. Það er jákvætt að stjórnvöld hafi stutt við uppbyggingu óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis. Uppbygging þess er hinsvegar langtímaverkefni og mikilvægt að tryggja að önnur tilfærslukerfi standi undir markmiði sínu á meðan neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði og framboðsvandi er enn til staðar. Þannig hafa húsnæðisbætur ekki haldið í við leiguverð og vaxtabætur duga ekki til að draga úr vaxtabyrði heimila.
Brýnt er að endurreisa tilfærslukerfin. Það kallar á hækkun bóta en fyrst og fremst krefst það pólitísks vilja af hálfu ráðamanna og áhuga á afkomu fólksins í landinu. Erfitt hefur verið að koma auga á þann vilja og áhuga hin seinni ár. Er ekki að undra að sífellt fleiri fá ekki séð að stjórnmálastéttin deili kjörum með íslenskum almenningi. Hér er þörf á snarpri u-beygju. Að öðrum kosti blasir við lífskjarahrun láglaunahópa og millistéttar.
Birtingarmyndir sveltistefnu
Það er ákveðin þversögn fólgin í því að í einu ríkasta landi heims sé ekki mögulegt að halda úti viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggja öldruðum hjúkrunarrými. Á landsbyggðinni finna íbúar fyrir hnignandi heilbrigðisþjónustu og iðulega er um langan veg að fara til að sækja hana.
Nýverið sagði formaður Læknafélags Íslands að ýmis héruð landsins séu í hættu að verða læknislaus innan fárra ára verði ekki gripið strax í taumana, auk þess sem ýmsar sérgreinar séu í “útrýmingarhættu” þ.e. nauðsynleg endurnýjun starfskrafta eigi sér ekki stað.
Formaðurinn hefur einnig ítrekað tjáð sig um ástandið á Landsspítalanum með skýrum hætti. Þekkt er að vandi Landspítalans felst ekki síst í því að þar hefur verið komið fyrir langlegusjúklingum sökum þess að pláss fyrir viðkomandi á hjúkrunarheimilum er ekki til staðar. Vandinn mun enn vaxa verði ekki brugðist við þar sem fyrir liggur að stækkandi hópar aldraðra munu leita eftir þessari þjónustu á næstu árum
Biðlistar á borð við þá íslensku þekkjast ekki í velferðarkerfum nágrannalandanna. Vandinn er ekki bundinn við heilbrigðiskerfið. Sérfróðir hafa árum saman bent á að samgönguinnviðir þjóðarinnar séu einfaldlega ekki gerðir fyrir þann fjölda fólks sem nú dvelur í landinu á hverjum tíma. Forustufólk í íþróttahreyfingunni segir íþróttamannvirki mörg hver með öllu óboðleg og í raun ónothæf miðað við alþjóðlega viðteknar kröfur.
Allt ber þetta að sama brunni.
Pólitísk forgangsröðun fer ekki saman við þarfir samfélagsins.
Útvistun starfa af hálfu hins opinbera er ein birtingarmynd sveltistefnunnar sem brýnt er að brugðist verði við. Með talsverðum ólíkindum er að hlýða á forystufólk í stjórnmálum hreykja sér af miklum árangri Íslendinga á sviði jafnréttismála í ljósi þess að það eru þessir sömu opinberu aðilar sem hafa forustu um að útvista láglaunastörfum ræstingafólks í þeim tilgangi að spara fjármuni. Konur og einkum konur af erlendum uppruna bera þessi störf uppi og með útvistun þeirra er þetta launafólk þvingað til að taka á sig verri kjör og aukið álag. Þetta er misnotkun á erlendu vinnuafli og veikri stöðu þess hér á landi. Innan verkalýðshreyfingarinnar er samstaða um að þessa svívirðilegu framgöngu verði að stöðva.
Annað dæmi um opinberu sveltistefnuna er að finna í breytingum á þjónustu leikskóla sem virðast hafa verið ákveðnar án minnstu skoðunar á afleiðingum þeirra. Þannig hefur Kópavogsbær kunngjört nýja gjaldskrá sem felur í sér að álögur lækka á þá sem stytta vistunartíma barna sinna og álögur aukast á hina tekjulægri. Þetta fyrirkomulag er fallið til að draga úr atvinnuþátttöku kvenna, draga úr vinnuframboði og vinna gegn verðmætasköpun. Ráði stjórnvöld ekki við að skapa barnafólki í landinu skilyrði til mannsæmandi lífskjara stenst samfélagið ekki samanburð og verður ekki samkeppnishæft.
Verkalýðshreyfingin er sterkasta afl framfara og breytinga í landinu. Þeirri stöðu fylgir mikil ábyrgð. Launafólk þarf nú að axla þá ábyrgð og beita afli samstöðu sinnar til að knýja fram umbætur og pólitíska ábyrgð á ýmsum meginsviðum samfélagsins. Takist það ekki mun hnignun grunnkerfa enn ágerast og lífsgæði þjóðarinnar minnka.
Óbreytt stefna og framganga stjórnmálamanna er ekki til farsældar fallin.
Þjóðin stendur á krossgötum.
Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands