Samiðn, MATVÍS og VM undirrituðu í gær nýja kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga sem gilda frá 1. nóvember 2019 til 31. mars 2023.
Helstu atriði samninganna eru:
Hækkun launa
1. nóvember 2019 hækka laun um kr. 17.000
1. apríl 2020 hækka laun um kr. 24.000
1. janúar 2021 hækka laun um kr. 24.000
1. janúar 2022 hækka laun um kr. 25.000
Lágmarkslaun
Lágmarkslaun fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu vera sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama sveitarfélagi:
Frá 1. nóvember 2019, 317.000 kr. á mánuði
Frá 1. apríl 2020, 335.000 kr. á mánuði
Frá 1. janúar 2021, 351.000 kr. á mánuði
Frá 1. janúar 2022, 368.000 kr. á mánuði
Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná framangreindum fjárhæðum, en til launa í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. mánaðarlaun með persónuálagi, yfirvinna, vaktaálag og aðrar álags- og aukagreiðslur, sem falla innan ofangreinds vinnutíma.
Uppgjörsgreiðsla 1. desember 2019
Uppgjörsgreiðsla fyrir tímabilið 1. apríl 2019 til 31. október 2019 er kr 75.500, sem greiðist þann 1. desember 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf 1. apríl 2019 til 31. október 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall.
Sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2023
Sérstök eingreiðsla, kr. 57.000 greiðist þann 1. febrúar 2023 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í 1. janúar 2023 og er enn í starfi í febrúar 2023. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall.
Persónuuppbót
Starfsmaður í 100% starfshlutfalli fær greidda persónuuppbót 1. maí og 1. desember ár hvert. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Hafi starfsmaður gengt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma. Það sama gildir um tímavinnufólk og miðast óskert fjárhæð við 1.504 unnar dagvinnustundir.
Persónuuppbót miðað við 100% starfshlutfall á samningstímanum verður sem hér segir:
1. desember 2019 kr. 115.850.
1. maí 2020 kr. 50.450.
1. desember 2020 kr. 118.750.
1. maí 2021 kr. 51.700.
1. desember 2021 kr. 121.700.
1. maí 2022 kr. 53.000.
1. desember 2022 kr. 124.750.
Orlof
Lágmarksorlof skal vera 240 vinnuskyldustundir (30 dagar) miðað við fullt ársstarf. Starfsmaður sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári skal fá orlof 20 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf.
Framlenging ráðningar starfsmanna sem náð hafa 70 ára aldri
Heimilt er vinnuveitanda að framlengja ráðningu eða endurráða starfsmann, sem hefur náð 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi samkvæmt gr. 11.1.7.1, í annað eða sama starf óski starfsmaður þess.
Starfsmaður skal sækja um það skriflega til vinnuveitanda með a.m.k. 3ja mánaða fyrirvara og skal hafa borist svar innan mánaðar frá umsókn.
Sé unnt að verða við ósk starfsmanns skal ráðning gilda í allt að tvö ár til fyrstu mánaðarmóta eftir að 72 ára aldri er náð, nema annar hvor aðili segi ráðningunni upp með þriggja mánaða fyrirvara.
Veikindi barna yngri en 13 ára
Foreldri, eða forsjámaður barns, á rétt á að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni varðskrá/vaktskrá. Réttur þessi hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns skv. öðrum greinum.
Nýta má að hluta eða að öllu leyti framangreindan rétt vegna barna undir 16 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar.
Námssjóður
Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í námssjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna. Úr sjóðnum er úthlutað til félagsmanna skv. reglum, sem gilda fyrir sjóðinn.
Stofnframlag í námssjóðinn kr. 64.400 greiðist þann 1. desember 2019 vegna hvers starfsmanns miðað við fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall fyrir tímabilið 1. apríl 2019 til 31. október 2019.