SGS fordæmir fyrirhugaðar hækkanir sveitafélaga

Höfundur

Ritstjórn

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega þeim hækkunum sem eru að koma fram víða hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. Þar má nefna hækkanir á einstökum gjaldskrám á um annan tug prósenta, yfirgengilegar hækkanir á launum bæjarstjórnarmanna og verulegar hækkanir og breytingar á leigukjörum í félagslegu húsnæði.

Fasteignagjöld hafa einnig hækkað mikið undanfarin ár og þó sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarhlutfallið vegur það alls ekki upp á móti hækkun á Fasteignamati.
Allar þessar hækkanir eru brot á yfirlýsingu sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út í tengslum við lífskjarasamninganna í vor. Í henni segir:

,,Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmdar. Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.“

Eitt af meginmarkmiðum lífskjarasamningsins er að lækka húsnæðiskostnað hjá þeim tekjulægstu og óskiljanlegt hvernig hækkun húsaleigu félagslegs húsnæðis samræmist yfirlýsingum sveitarfélaganna. Það er algerlega óþolandi að sjá þær kjarabætur sem samið var um í vor teknar beint af launafólki með þessum hækkunum sveitarfélaganna. Og ekki þarf að hafa mörg orð um þá sveitarstjórn sem hækkar sín eigin laun um 18-30% meðan ekki hefur náðst samningur milli SGS og sveitarfélaganna.

Félagsmenn okkar munu ekki sitja hljóðir hjá ef þeir eiga einir að standa við gerða samninga. SGS skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og einstök sveitarfélög að standa við fyrrnefnda yfirlýsingu og axla með því ábyrgð á að markmið samninganna frá því í vor náist.

Tengdar fréttir

  • Aðgerðir tengdar kjarasamningum taka gildi

    Við gerð kjarasamninga gerði verkalýðshreyfingin kröfur á stjórnvöld um aðgerðir…

    Ritstjórn

    5. jún 2024

  • Mikill stuðningur við kjarasamning SGS og SA

    Kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur verið…

    Ritstjórn

    19. des 2022

  • Vörukarfa ASÍ hækkaði í 6 af 8 verslunum á 6

    Á 6 mánaða tímabili, frá lokum mars 2021 fram í…

    Ritstjórn

    15. okt 2021