Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Smálánafyrirtæki stefnir Neytendasamtökunum – Stéttarfélögin stilla upp varnarvegg

Ólögleg smálánastarfsemi á undir högg að sækja og hefur ýmislegt unnist í baráttunni gegn henni á undanförnum misserum vegna baráttu Neytendasamtakanna, VR ASÍ og Eflingar. Þannig hefur eCommerce 2020 ApS hætt lánastarfsemi sinni á Íslandi, Creditinfo sagt upp viðskiptum við Almenna innheimtu, sem innheimtir smálánaskuldirnar og hætt skráningum þeirra á vanskilaskrá Creditinfo.

Fyrirtækið eCommerce 2020 stundar þó enn að skuldfæra meintar skuldir lántakenda beint af bankareikningum og kreditkortum fólks. Engin heimild er til slíks og þegar lántakar reyndu að leita réttar síns vísaði hver á annan og virðist engin/n hafa eftirlit eða valdheimildir til að stöðva athæfið. Við eftirgrennslan kom í ljós að fyrirtækin Quickpay og Clearhaus gera eCommerce 2020 kleift að komast inn á bankareikninga fólks.

Neytendasamtökin sendu tölvupóst á Quickpay og bentu á að fyrirækið eCommerce2020 sem þau væru í viðskiptum við hefði stundað ólögmætar lánveitingar og væri nú að skuldfæra fjárhæðir án skýrrar heimildar eða samnings við lántakendur. Upphæðir sem í flestum tilfellum eiga ekki rétt á sér.
eCommerce 2020 hefur nú stefnt Neytendasamtökunum og Breka Karlssyni formanni, vegna þessa og fer bæði fram á að ummæli í tölvupóstinum verði dæmd dauð og ómerk sem og skaðabætur. Með stefnunni er félagið þannig að gera opinber þau ummæli sem send voru í einkapósti, sem gengur gegn markmiði stefnunnar. MAGNA lögmannsstofa tekur til varna fyrir Breka og Neytendasamtökin.

Athygli vekur að íslenskir lögmenn eCommerce hafi fengið þau fyrirmæli frá félaginu að þeir megi ekki taka á móti stefnu frá íslenskum neytanda. Er þetta enn ein leiðin til þess að leggja stein í götu neytenda, þar sem alvanalegt er að lögmenn taka á móti stefnum fyrir hönd umbjóðenda sinna. Þar sem eCommerce neitar slíku þarf neytandinn nú að láta þýða stefnuna yfir á dönsku og birta hana í Danmörku á starfsstöðvum félagsins þar sem fyrir liggur að engin starfsemi er.
Alþýðusamband Íslands, VR og Efling hafa lýst því yfir að þau munu styðja Neytendasamtökin með ráð og dáð.

Drífa Snædal, forseti ASÍ: „Baráttan gegn smálánum er barátta fyrir almannahag, margar fjölskyldur hafa farið illa út úr viðskiptunum og ASÍ hefur bundist samtökum með Neytendasamtökunum gegn þessu. Miklir fjármunir eru greinilega í húfi fyrir smálánafyrirtækin og einskis svifist, málareksturinn er hluti af því. Baráttan heldur áfram.“

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR: „Það er ljóst að baráttan við smálánafyrirtækin er að bera árangur. Viðbrögðin staðfesta að við erum á réttri leið og full ástæða sé til að skerpa enn frekar á baráttunni gegn þessum fyrirtækjum og öllum sem þeim tengjast. VR mun styðja Neytendasamtökin í málarekstrinum, bæði í orði og á borði. Sé ráðist að einum, er ráðist að okkur öllum.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Þessi fyrirtæki valda stórkostlegum skaða í íslensku samfélagi. Þau notfæra sér fátækt annars vegar og fíknisjúkdóma hins vegar til að græða. Það er ekki hægt samþykkja slíkt framferði. Stjórn Eflingar hefur tekið þátt í baráttunni gegn þessum fyrirtækjum með Neytendasamtökunum og mun halda því áfram“.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna: „Málatilbúnaður fyrirtækisins er fáránlegur og gengur gegn markmiði sínum. Það er frábært að finna þéttan stuðning stéttarfélaganna og í samfélaginu gegn þessum vágesti.“

Beðið er eftir því að málið verði þingfest, en Neytendasamtökin hafa farið fram á málskostnaðartryggingu af hendi stefnanda.

Author

Tengdar fréttir