Stjórn VM gagnrýnir harðlega þá stöðu sem komin er upp í kjaradeilu félaga í VM og Rio Tinto. Það er ekki boðlegt að tilbúinn samningur um kjör starfsmanna álversins sé notaður til þess að semja um verð á orku fyrir álverið sem er algjörlega óskylt mál.
Sá samningur sem er á borðinu er í aðalatriðum það sem samið var um í lífskjarasamningnum sem skrifað var undir á almenna markaðinum í maí sl. Kostnaðarauki vegna þessa samnings er að hámarki 0,5% af rekstrarkostnaði fyrirtækisins og því ljóst að fyrirtækið stendur ekki eða fellur með þessum kjarabótum starfsmanna. Starfsmenn hafa verið samningslausir í rúma 10 mánuði og þolinmæðin þeirra er löngu þrotin.
Stjórn VM krefst þess að Rio Tinto skrifi undir kjarasamning við sína félagsmenn strax enda ekki boðlegt fyrir félagsmenn VM að bíða lengur eftir kjarabótum.