Peningastefnunefnd Seðlabanka Ísland tilkynnti í gær um ákvörðun sína um að hækka vexti um það sem nemur 0,5%. Meginvextir bankans (stýrivextir), vextir á sjö daga bundnum innlánum, hækka því úr 6% í 6,5%.
Með þessari ákvörðun leggur Seðlabankinn upp með að tryggja það að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni. Miðstjórn ASÍ hefur gagnrýnt hækkunina í nýlegri ályktun.
Síðasta stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar var 23. nóvember síðastliðinn, þegar vextir voru hækkaðir um 0,25%, og næsta ákvörðun verður 22. mars næstkomandi þar sem búast má við áframhaldandi hækkun stýrivaxta ef marka má hina svokölluðu framsýnu leiðsögn sem fylgdi yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Seðlabanki Íslands bætist í hóp Seðlabanka Evrópu, Bandaríkjanna og Englands sem í síðustu viku hækkuðu vexti sína um 0,25-0,50 prósentustig. ASÍ hefur vakið athygli á yfirlýsingu Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC) um að slíkar hækkanir komi til með að hafa bein og skaðleg áhrif á launafólk.
Verðbólga mælist 9,9% í byrjun árs
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar samkvæmt tölum Hagstofunnar og tólf mánaða breyting á vísitölu neysluverðs mældist 9,9% á fyrsta mánuði ársins. Án húsnæðisliðar mældist hækkunin 8,3% og hefur ekki verið meiri síðan í maí 2010. Hækkun vísitölunnar í janúar skýrðist að stórum hluta af hækkunum skatta og opinberra gjalda sem tóku gildi á áramótum.
Peningastefnunefnd telur ástæðu til að hækka vexti til að mæta mikilli þenslu í hagkerfinu, lítilli breytingu á langtíma verðbólguvæntingum og versnandi verðbólguhorfum og lægra gengi krónunnar en spáð var af bankanum í nóvember.
Á fundi peningastefnunefndar kom fram að aðhald hins opinbera hafi verið minna en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans og er þar spjótum beint að stjórnvöldum sem um áramót fóru í tekjuöflunaraðgerðir með hækkun á krónutölugjöldum sem skýrðu að stórum hluta hækkun vísitölu neysluverðs í janúar. Slíkar hækkanir leggjast hlutfallslega þyngst á tekjulægri hópa líkt og fram kom ályktun miðstjórnar ASÍ um verðbólgu í janúar.
Mikil áhrif á vaxtabyrði heimila
ASÍ hefur bent á að áhrif hækkandi stýrivaxta á fjárhag heimilanna sé verulegur en áhrifin eru mest á skuldsett heimili. Hækkanir á stýrivöxtum hafa takmörkuð áhrif á þá sem eru með verðtryggð lán og óverðtryggð lán með fasta vexti. Vaxtatækið hefur því mest áhrif á heimili með óverðtryggð lán og breytilega vexti. Þar hefur greiðslubyrði hækkað verulega undanfarin misseri. Alls má vænta að vaxtabyrði heimila hafi aukist um 13 milljarða við ákvörðunina.
Einstaklingur sem tók lán til kaupa á íbúð í byrjun árs 2021 gat fengið 3,4% vexti á óverðtryggðu húsnæðisláni. Greiðslubyrði á 50 milljón króna láni var á þeim tímapunkti 190 þúsund krónur á mánuði. Á sama láni er greiðslubyrði í dag um 336 þúsund krónur á mánuði og útlit fyrir að greiðslubyrðin geti enn hækkað um 20 þúsund vegna þeirrar vaxtahækkunar sem boðuð var í gær. Líkt og bent var á í nýlegu mánaðaryfirliti ASÍ hefur þessi þróun ýtt undir töku verðtryggðra lána.