Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Stýrivextir hækka um 0,5% og eru nú 2%

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 2%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í nóvemberhefti Peningamála eru horfur á um 4% hagvexti í ár sem er svipað því sem spáð var í ágúst. Betri horfur um útflutning gera það hins vegar að verkum að hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hafa batnað nokkuð og er talið að hagvöxtur verði liðlega 5%. Óvissa er hins vegar enn mikil og þróun efnahagsmála mun sem fyrr markast af framvindu farsóttarinnar.

Verðbólga jókst í október og mældist 4,5%. Framlag innlends kostnaðarþrýstings, hækkunar húsnæðisverðs og launa hefur skýrt stóran hluta verðbólgunnar undanfarið en áhrif hækkana alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hafa einnig aukist. Undirliggjandi verðbólga er hins vegar minni og hefur hjaðnað undanfarna mánuði.

Verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð frá því í ágúst sem m.a. má rekja til þrálátari alþjóðlegra verðhækkana, hraðari viðsnúnings í innlendum efnahagsumsvifum og hækkunar launakostnaðar. Horfur eru á að verðbólga aukist áfram á næstu mánuðum en taki síðan að hjaðna enda haldist kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið.

Peningastefnunefnd ítrekar að hún mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Author

Tengdar fréttir