Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Stýrivextir lækkaðir – samdrætti spáð á þessu ári

Peningastefnunefnd ákvað þann 28. ágúst að lækka stýrivexti um 0,25% og eru meginvextir bankans nú 3,5%. Áður hafði nefndin lækkað vexti um 0,5% í maí og svo 0,25% í júní. Vaxtalækkanir skýrast meðal annars af því að dregið hefur úr þenslu í efnahagslífinu ásamt því að gert er ráð fyrir hjöðnun verðbólgu á komandi misserum. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að verðbólga hafi náð hámarki og gangi spáin eftir verði verðbólga að jafnaði 2,4% á næsta ári eða í kringum verðbólgumarkmið.

Samhliða ákvörðun um vaxtalækkun gaf Seðlabankinn einnig út rit sitt Peningamál en í því má nálgast uppfærða efnahagsspá bankans. Því er spáð að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári, um 0,2% en það er minni samdráttur en gert var ráð fyrir í vorspá bankans. Breytingin skýrist fyrst og fremst af minni samdrætti einkaneyslu á þessu ári ásamt meiri samdrætti innflutnings. Hins vegar gerir spáin ráð fyrir minni hagvexti á næsta ári, eða 1,9%.

Í Peningamálum er fjallað um vísbendingar um að vinnumarkaðurinn sé að hægja á sér en þar er bent á fækkun starfa sem mælist í gögnum úr staðgreiðsluskrá, en samkvæmt þeim fækkaði störfum um 1% milli ára á öðrum ársfjórðungi. Atvinnuleysi jókst skarpt í kjölfar gjaldþrots WOW en í sumar hefur árstíðarleiðrétt atvinnuleysi staðið í stað. Samkvæmt könnun Gallup sem gerð er hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins er útlit fyrir að störfum komi til með að fækka frekar á næstu misserum þar sem meðal annars er bent á versnandi horfur að mati stjórnenda í verslun og mannvirkjagerð.

Tengdar fréttir