14. þing Evrópusambands stéttarfélag (ETUC) var sett í Vín í dag. Yfirskrift þingsins er „Réttlátari Evrópa fyrir launafólk“ en alls sitja þingið meira en 600 forystumenn verkalýðsfélaga frá 38 Evrópulöndum.
ETUC þingið er haldið í skugga vaxandi þjóðernispopúlisma og stuðnings við hægri öfgaflokka í Evrópu. Á sama tíma er vegið að réttindum og kjörum launafólks víða í álfunni og lýðræðið á undir högg að sækja. Þetta á ekki síst við í Austurríki þar sem þingið er haldið. Þar komst hægri stjórn til valda á síðasta ári sem réðst strax af hörku gegn verkalýðshreyfingunni og hagsmunum launafólks í landinu. Ríkisstjórn sem nú hefur hrökklast frá völdum vegna spillingarmála.
Luca Visentini, framkvæmdastjóri ETUC, áréttaði í ávarpi sínu við setningu þingsins mikilvægi þess að skilja ástæður vaxandi þjóðernishyggju og stuðning við hægri öfgaflokka. Aðeins þannig verður hægt að bregðast við þessari hættulegu þróun sem ógnar friði, lýðræði og hag launafólks í álfunni. Orsakanna er að leita í atvinnuleysi, vaxandi ójöfnuði og misskiptingu í Evrópu eins og víða annars staðar í heiminum. Vaxandi fjöldi launafólks býr við minnkandi starfsöryggi og versnandi afkomu um leið og þeir ríku verða ríkari og alþjóðleg stórfyrirtæki vaða uppi og komast undan því að greiða skatta til samneyslunnar.
Launafólk í Evrópu býr við minna öryggi og upplifir vaxandi óréttlæti og misskiptingu sem leitt hefur til vonleysis og vantrúar á þá stjórnmálaflokka sem verið hafa við völd í Evrópu. Skilaboð ETUC þingsins eru að þróuninni verði aðeins snúið við með því að styrkja verkalýðshreyfinguna og skapa réttláta og félagslega Evrópu, fyrir launafólk og alla alþýðu.
Fulltrúar ASÍ á ETUC þinginu eru Drífa Snædal, forseti ASÍ, Berglind Hafsteinsdóttir, formaður alþjóðanefndar ASÍ og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ. Þá situr Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, hluta þingsins.
Hér er hægt er að fylgjast með þingi ETUC