Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Þörf á nýjum samfélagssáttmála

ALÞJÓÐASAMBAND verkalýðsfélaga (ITUC) krefst þess að gerður verði „nýr samfélagssáttmáli” (e. New Social Contract) til að tryggja að hagkerfi þjóni þörfum mannkyns og unnt verði að bjarga almenningi og umhverfinu frá hamförum og eyðileggingu. Nýjan samfélagssáttmála megi knýja fram með samstöðu launafólks og verkalýðsfélaga og hann beri að grundvalla á lýðræði, jafnrétti og sameiginlegri hagsæld. 

Þetta kemur fram í lokayfirlýsingu 5. heimsþings Alþjóðasambands verkalýðsfélaga sem fram fór í Melbourne í Ástralíu í lok nóvembermánaðar. Yfirlýsingin er um leið stefna ITUC til næstu fjögurra ára. Þingið sóttu tæplega 1.000 fulltrúar frá rúmlega 120 löndum.  

Gegn græðgi og skeytingarleysi 

Í ítarlegri lokasamþykkt þingsins er víða komið við en miðlæg er sú hugsun að grípa verði til róttækra aðgerða til að hefta græðgi stórfyrirtækja og skeytingarleysi stjórnvalda víða um heim um hag almennings og réttláta skiptingu gæða. Jafnframt er í yfirlýsingunni vísað til þess að COVID-veirufaraldurinn hafi víða opinberað meiriháttar samfélagslega veikleika og valdið ómældum skaða sem bitni einna verst á konum, ungu fólki og hinum fátæku.  

Þingið hvetur til þess að ríki heims sameinist um nýjan samfélagssáttmála sem grundvallaður verði á eftirfarandi sex meginkröfum launafólks: 

  • Störfum 
  • Réttindum 
  • Launum 
  • Félagsvernd 
  • Jafnrétti  
  • Inngildingu  

Samstaða launafólks forsenda framfara 

Segir í yfirlýsingunni að síðustu 150 árin hafi verkalýðshreyfingar verið mikilvægir drifkraftar lýðræðis og mannréttinda. Framfarir á sviði félags- og efnahagsmála megi ekki síst þakka samstöðu launafólks og samningum á vinnumarkaði sem unnið hafi gegn græðgi, misnotkun og mismunun. Leiðarljósið hafi verið friður, lýðræði, sjálfbær þróun og jafnrétti. 

Nú blasi við að þessi sýn til heims og mannkyns verði ekki að veruleika í hinu hnattvædda efnahagskerfi stórfyrirtækja og nýfrjálshyggju. Þörf sé á róttækum umskiptum og felur þingið ITUC að vinna að þeim. Viðbrögð við ójöfnuði, misnotkun og mismunum á jöðrum samfélaga muni hvergi duga. Gjörbreytinga sé þörf sem nái til alls mannkyns. Nýtt „líkan” þurfi að koma til og „Nýr samfélagssáttmáli” sé grundvöllur þess.  

COVID-faraldurinn hafi sýnt og sannað nauðsyn þess að slík breyting verði að veruleika. Faraldurinn hafi kostað milljónir mannslífa, fleiri hundruð milljónir starfa hafi glatast og milljarðar manna í þróunarríkjum eigi ekki aðgang að viðunandi störfum, læknisþjónustu eða bólusetningum. Viðbrögð flestra ríkisstjórna og alþjóðlegra fjármála – og viðskiptastofnana hafi verið ófullnægjandi á öllum þessum sviðum.  

Lýðræðið í hættu 

Með því að bregðast réttmætum kröfum almennings sé sjálfu lýðræðinu stefnt í hættu. Traust í garð stjórnvalda fari enn minnkandi og gildi fjölmenningar og alþjóðlegrar samstöðu eigi í vök að verjast. Margar þeirra alþjóðastofnana sem ætlað hafi verið að leggja grunn að inngildingu, réttlátri skiptingu gæða og sjálfbærri þróun búi ekki yfir nægum styrk og henti ekki nútímanum. Gera þurfi á þeim róttækar breytingar til að þær fái uppfyllt það hlutverk sem þeim sé ætlað á grundvelli nýs samfélagssáttmála og felist í framkvæmd og stuðningi við réttmætar kröfur launafólks um umbætur.  

Author

Tengdar fréttir