Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Þrjú verkefni hljóta styrk úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Hallfríði Þórarinsdóttur styrk að fjárhæð kr. 550.000 vegna verkefnisins: „Innflytjendur í veitingaþjónustu“
Markmið verkefnisins er að kortleggja og greina þátttöku starfsfólks af erlendum uppruna í veitingaþjónustu. Tvö svæði verða í brennidepli: miðbær Reykjavíkur og valdir staðir á Suðurlandi. Rýnt verður í þróun og fjölgun erlendra starfsmanna á veitingastöðum á þessum svæðum á undanförnum árum m.t.t. kyns, aldurs, þjóðernis og lengdar í starfi og hlutfallið milli tímabundinna ráðninga, s.s. sumarstarfa og annara dregið fram. Kannað verður hverskonar vinnuumhverfi veitingastaðirnir eru m.t.t. launakjara, framgangs í starfi, þjálfunar í íslensku og félagslegrar þátttöku í samfélaginu. Starfsmannavelta verður jafnframt skoðuð og tölulegra upplýsinga aflað um fjölda starfstengdra umkvartana starfsfólks til stéttarfélaga auk hvers konar misneytingar, sem kann að hafa komið upp og rýnt í viðbrögð og úrræði yfirvalda gagnvart henni. Skoðað verður hvernig etnísk lagskipting á vinnumarkaði innflytjandi/ekki innflytjandi birtist meðal starfsfólks og hvaða vísbendingar hún gefur. Til að varpa sem skýrustu ljósi á hlutdeild innflytjenda í veitingageiranum verður fókusað sérstaklega á sex til átta veitingahús, á sitt hvoru svæðinu (höfuðborgarsvæði og Suðurland).
Verkefnið er framlag til aukins skilnings á vinnuframlagi starfsfólks af erlendum uppruna og þeim breytingum sem eru að verða á íslenskum vinnumarkaði með aukinni þátttöku þeirra.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Jóhannesi Hraunfjörð Karlssyni styrk að fjárhæð kr. 100.000 vegna verkefnisins: „Frá kreppu til lífskjarasamnings“
Markmiðið með rannsókninni er að skoða aðkomu hins opinbera að lausn kjarasamninga, einnig að rannsaka með hvaða hætti verðtrygging launa og/eða lánsfjár hafði áhrif á varanleika raunkjarabóta kjarasamninganna með hliðsjón af aðgerðum hins opinbera.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Maríu Liv Biglio Róbertsdóttur styrk að fjárhæð kr. 100.000 vegna verkefnisins: „Viðhorf mannauðsstjóra og stjórnenda til eldri starfsmanna á Íslandi“
Markmiðið með þessari rannsókn er að komast að því hvort það sé vísbending um aldurs mismunun í ráðningu á eldri einstaklingum. Í rannsókninni verður reynt að komast að hversu stór þáttur aldur er innan ráðningarferlisins til að meta hvort þörf sé á vitundarvakningu um eldri starfsmenn og til að berjast gegn aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.

Sjóðurinn veitir styrki til að efla rannsóknir og útgáfu á verkum sem varða sérstaklega vinnumarkaðinn, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Einnig veitir hann styrki til að sækja námskeið eða afla sér með öðrum hætti þekkingar á verkalýðshreyfingunni og málefnum launafólks, innanlands eða erlendis.

Mynd: Drífa Snædal forseti ASÍ og Hallfríður Þórarinsdóttir

Author

Tengdar fréttir