Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Tillögur samráðsvettvangs um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu

Í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg 1 í júní 2020 fól félags- og barnamálaráðherra Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að yfirfara regluverk og framkvæmd hvað varðar brunavarnir í íbúðarhúsnæði og í óleyfisbúsetu og gera tillögur um úrbætur til að minnka líkur á því að slíkur atburður endurtaki sig. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun óskaði eftir aðkomu hagsmunaaðila að gerð tillagnanna með það mikilvæga markmið að leiðarljósi að auka öryggi íbúa á heimilum sínum með tilliti til brunavarna og átti ASÍ fulltrúa í hópnum. Nauðsynlegt var að taka umræðuna upp á breiðari grundvelli en áður hafði verið gert enda náði umfjöllunarefnið til margra málefnasviða og mörg ólík sjónarmið sem taka þarf tillit til þannig að tillögur um úrbætur verði markvissar og skili tilætluðum árangri.

Samráðsvettvangurinn gerði 13 tillögur um úrbætur í skýrslu sem skilað var til félags- og barnamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Í skýrslunni segir m.a.:

Í lögum og reglugerðum er kveðið með margvíslegum hætti á um kröfur um brunavarnir í mannvirkjum sem ætlað er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi. Mismunandi kröfur eru gerðar til húsnæðis eftir notkun og þær skilgreindar eftir því hvort sofið sé í húsinu, hvort einstaklingar sem þar dvelja þekki flóttaleiðir og hvort þeir komist út úr húsinu eða á öruggan stað af sjálfsdáðum verði eldsvoði. Nútímakröfur um brunavarnir voru fyrst skilgreindar í lögum og reglugerðum hér á landi rétt fyrir aldamót og regluverkið mun yngra en margir átta sig á. Stór hluti þeirra íbúða sem nú eru í notkun var byggður fyrir þann tíma og myndi ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til brunavarna í dag. Taka því margir óafvitandi áhættu með líf sitt og fjölskyldu sinnar, heilsu, eignir og umhverfi með ófullnægjandi brunavörnum á heimilum sínum. Hins vegar eru líkur til þess að flestir myndu gera hvað þeir geta til að minnka þá áhættu væru þeir meðvitaðir um hana.

Mikilvægt er að fræða almenning um brunavarnir á heimilum, hvaða kröfur eru gerðar og hvernig íbúðir uppfylla þær kröfur. Einnig þarf að fræða eigendur húsnæðis, framkvæmdaraðila og fagaðila um það regluverk sem gildir við breytingar á húsnæði og/eða notkun þess og skapa umhverfi sem miðar að því að tryggja mun betri fylgni við reglurnar. Þar er bæði horft til þess að skapa hvata sem og að auka heimildir eftirlitsaðila til þess að krefjast úrbóta, leggja á viðurlög og til aðgangs til að framkvæma eftirlit. Eldri timburhús og óleyfisbúseta í atvinnuhúsnæði eru sérstakir áhættuþættir sem rétt er að bregðast við með sértækum aðgerðum. Sérstaklega er horft til aukinnar hagnýtingar stafrænna lausna og betri upplýsinga um notkun íbúða t.a.m. hvað varðar útleigu og búsetu.

Samráðsvettvangur um brunavarnir í íbúðum telur að draga megi mikinn lærdóm af brunanum við Bræðraborgarstíg 1 og leggur til í því skyni fram 13 tillögur til úrbóta og eru þær eftirfarandi:

1. Vitundarvakning meðal almennings um stöðu brunavarna á heimili sínu
2. Í opinberu byggingareftirliti verði skilgreindar sérstakar stöðuskoðanir byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna brunavarna
3. Tryggt verði að íbúðarhúsnæði sé ekki tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt.
4. Leigusali geri við upphaf leigusambands grein fyrir brunavörnum í leigusamningi skv. niðurstöðu ástandsskoðunar
5. Skráningarskylda leigusamninga verði lögfest og mismunandi tegundir útleigu skilgreindar
6. Endurskoðaðar verða heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis/aðseturs í íbúðarhúsnæði
7. Samhliða innleiðingu á flokkun mannvirkja verði ráðist í fræðsluátak um tilkynningaskyldar og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir með áherslu á brunavarnir
8. Skilgreindir verði hvatar fyrir eigendur íbúðarhúsnæðis sem ráðist hafa í framkvæmdir í húsnæðinu án þess að afla byggingarleyfis eða tilkynna framkvæmdina þegar þar var skylt til þess að gera svo.
9. Sérstakt átaksverkefni HMS, byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna eldri timburhúsa
10. Óleyfisbúseta verði kortlögð með ítarlegum hætti
11. Metið verði hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi
12. Endurskoðaðar verði heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits.
13. Lög um brunatryggingar verði tekin til heildstæðrar endurskoðunar m.a. með í huga að útbúa hvata til brunavarna í gegnum brunatryggingar.

Skýrsluna má finna hér.

Author

Tengdar fréttir