Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Töluverðar hækkanir á þurrvöru frá því í haust

Þurrvörur, brauð, kex, sælgæti og snakk hækkaði mest í verði í flestum verslunum á átta mánaða tímabili frá hausti 2018 fram á sumar 2019. Verðhækkanir mátti finna í öllum þeim vöruflokkum sem skoðaðir voru. Verð hækkaði oftast í Hagkaup eða í 38 tilvikum af 49 en sjaldnast í Iceland eða í 9 tilvikum af 49. Þá voru verðhækkanir einnig mestar í Hagkaup. Þetta sýna gögn verðlagseftirlits ASÍ sem safnað var dagana 10. október 2018 og 3. júní 2019. Þær verslanir sem samanburðurinn nær til eru Bónus, Krónan, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland og Kjörbúðin.

Mestu verðhækkanirnar hjá Hagkaup
Mestar verðhækkanir, á þeim vörum sem verðlagseftirlit ASÍ skoðaði, voru hjá Hagkaup en mjög miklar hækkanir voru þar í öllum vöruflokkum. Þannig hækkaði verð oftast í Hagkaup eða í 38 tilvikum af 49 og í 25 tilvikum af 49 voru mestu verðhækkanirnar í Hagkaup. Sjaldnast hækkaði verð í Iceland eða í 9 tilvikum af 49. Í öðrum verslunum hækkaði verð í um 40% tilfella eða í 21 tilvikum af 49 í Bónus, 22 tilvikum í Krónunni, 23 tilvikum í Nettó, 20 tilvikum í Fjarðarkaupum og 20 tilvikum í Kjörbúðinni.

Þessar niðurstöður koma heim og saman við nýlega birta mælingu á vörukörfu ASÍ.

Allt að 17% hækkun á brauðmeti
Samanburðurinn nú sýnir m.a. að Lífskorn, brauð með tröllahöfrum og chia-fræjum frá Myllunni, hækkaði í öllum verslunum nema Iceland um 4-15%. Hækkunin var lang mest hjá Hagkaup, 15%.
Ömmu flatkökur hækkuðu um 17% í Hagkaup sem er mesta einstaka hækkunin á brauðmeti og 7% í Krónunni en ekkert í Nettó, Fjarðarkaupum og Kjörbúðinni. Flatkökurnar fengust ekki í Bónus og Iceland.

Pylsubrauð frá Myllunni hækkaði í öllum verslunum þar sem það fékkst. Mest var hækkunin 14% í Nettó, Kjörbúðinni og Hagkaup, 8% í Fjarðarkaupum, 5% í Krónunni og 4% í Iceland. Þá hækkaði Crawfords vanillukex um 9-14%, mest um 14% í Hagkaup og Kjörbúðinni og 13% í Nettó. Doritos ostasnakk hefur hækkað í fimm af sjö búðum um 5-30%. Hækkunin nam 5% í Bónus, Krónunni og Kjörbúðinni, 13% í Fjarðarkaupum og 30% í Hagkaup.

Drykkjarvörur hækka einnig í mörgum tilvikum. Sem dæmi má nefna að verð á Senseo classic kaffipokum hækkaði um 3-13%. Mest var hækkunin hjá Fjarðarkaupum um 13%, 10% hjá Hagkaup, 8% hjá Nettó , 5% hjá Bónus og 3% hjá Krónunni. Kaffipokarnir hækkuðu ekkert í Iceland og voru ekki til í Kjörbúðinni. . Þá hækkaði verð á Melroses te (25 pokar) um 27% í Hagkaup, 15% í Kjörbúðinni, 6% í Bónus og 1% í Krónunni. Tepokarnir hækkuðu ekkert í Iceland og Fjarðarkaup og voru ekki til í Nettó.

Mjólkurvörur í könnuninni hækka almennt minna en aðrir vöruflokkar að undanskildu hreinu KEA skyri sem hækkaði í öllum verslunum og námu hækkanirnar á bilinu 10-20%. Mjólkurvörur hækkuðu þó í einhverjum tilfellum og oftast í Hagkaup eða í 11 tilfellum af 12.

Í þessari töflu má sjá verðhækkanir milli tímabilanna.

Um könnunina
Borið er saman verð úr könnunum verðlagseftirlitsins frá 10.10.2018 og  3.6.2019. Ef tölu vantar í reitinn hefur viðkomandi vara ekki verið til eða hún ekki verðmerkt. Verslanirnar sem verðsamanburðurinn nær til eru Bónus, Krónan, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland, Hagkaup og Kjörbúðin.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Author

Tengdar fréttir