Um miðjan júní komst Hæstiréttur Sviss að þeirri niðurstöðu að Uber bílstjórar í Genf væru í reynd launamenn í þjónustu Uber en ekki sjálfstæðir verktakar eins og Uber hélt fram en áður hafði starfsemi Uber í Genf verið bönnuð.
22. júní tókst samkomulag sem felur í sér að Uber í Genf viðurkennir bílstjóra sína sem launamenn en það þýðir að þeim verða tryggð lögbundin lágmarkslaun, 3.323 ISK á tímann, auk iðgjalda til sjúkratrygginga o.fl. Þessi dómur er í takti við þá þróun sem er að eiga sér stað um alla Evrópu þar sem dómstólar hafna viðskiptamódeli Uber sem byggir á því að bílstjórar séu sjálfstæðir verktakar án allra réttinda.
Ítrekað hafa lagafrumvörp samgönguráðherra sem í reynd heimila starfsemi farveitna eins og Uber án nokkurrar ábyrgðar gagnvart starfsmönnum dagað uppi. Ráðherrann hefur þó ekki gefist upp og hyggst þó endurflytja mál sitt eina ferðina enn í haust í andstöðu við samtök launafólks og leigubifreiðastjóra.
Lesa má umsögn ASÍ um frumvarpið hér.