Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Undirbúningur hafinn fyrir verkfallsaðgerðir í borginni

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áformað er að hefjist í febrúar. Félagsmenn þurfa að samþykkja tillöguna og er undirbúningur hafinn á skrifstofum Eflingar fyrir atkvæðagreiðslu. Samkvæmt tillögunni verða hálfir og heilir verkfallsdagar með stigvaxandi þéttleika fyrri hluta febrúarmánuðar og ótímabundið verkfall frá mánudeginum 17. febrúar.

Ákvörðun um að leggja fram tillögu um verkfallsboðun var tekin að loknum samningafundi í dag hjá ríkissáttasemjara. Viðræður halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða. Óskaði nefndin í dag eftir samningafundi með Reykjavíkurborg næstkomandi fimmtudag.

„Reykjavíkurborg hefur enga viðleitni sýnt til að koma til móts við vanda láglaunafólksins sem heldur uppi grunnþjónustu borgarinnar eða til að standa við eigin fagurgala um borgina sem vinnustað jöfnuðar. Reykjavíkurborg hefur sýnt starfsfólki sínu á lægstu laununum vanvirðingu í þessum viðræðum, með framkomu sinni, töfum og sinnuleysi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við höfum fengið nóg. Við krefjumst þess að gengið verði frá sanngjörnum samningi sem fyrst. Við bindum vonir við fundinn í næstu viku.“

Nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu verða birtar á næstu dögum.

Rúmlega 1800 starfsmenn Reykjavíkurborgar starfa undir kjarasamningi Eflingar. Þar af eru yfir 1000 á leikskólum, 710 í umönnunarstörfum á Velferðarsviði og um 140 í fjölbreyttum störfum á Umhverfis- og skipulagssviði.

Author

Tengdar fréttir