Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Úthlutun úr Minningarsjóði Eðvarðs

Á hverju ári er styrkjum úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar úthlutað til verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Í ár samþykkti stjórn sjóðsins að veita eftirfarandi styrki:

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins hlaut 1.000.000 kr. til verkefnisins Starfsfólk í ræstingum – lífsskilyrði og heilsa. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á lífsskilyrði og heilsu þeirra sem starfa við ræstingar en framkvæmd verður rannsókn þar sem staða þeirra verður greind með tilliti til fjárhagsstöðu, líkamlegrar og andlegrar heilsu og kulnunar.

Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg hlutu 1.000.000 kr. til verkefnisins Átök og ágreiningur á íslenskum launamarkaði, 2009 og 2019, þar sem viðhorf almennings til málsins verða skoðuð. Annars vegar verður viðhorf Íslendinga til æskilegs launamunar milli hálauna- og láglaunastétta skoðað og hins vegarreynt að greina hvar almenningur sér helst átakalínu milli ólíkra þjóðfélagshópa.

Sveinn Máni Jóhannesson hlaut 1.000.000 kr. til verkefnisins Varnargarður gegn verkalýðnum: Peningastjórnmál og sjálfstæði seðlabanka eftir fyrri heimsstyrjöld. Markmið verkefnisins er að varpa fræðilegu ljósi á seðlabankastarfsemi á Íslandi á þessu tímabili og setja hana í alþjóðlegt samhengi.

Sæþór Benjamín Randalsson hlaut 500.000 kr. styrk til þess að vinna viðtalaröðina Helvítis útlendingar, en markmið þess er að varpa ljósi á skort erlendra einstaklinga í verkalýðsstétt á pólitísku valdi og áhrif þess á líf þeirra. Umsækjandi segist með viðtölunum vilja endurtaka áhrif þríleiksins „Fátækt fólk“ eftir Tryggva Emilsson sem skapað hafi höggbylgu innan hinnar öruggu stéttar Íslendinga um lífskjör verkalýðsins.

Árni Daníel Júlíusson hlaut 300.000 kr. styrk til útgáfu tímaritsins Demos. Ætlunin er að gefa blaðið út tvisvar á ári og stefnt að því að fyrsta heftið kom út nú í vor. Blaðinu er, með orðum útgefanda, ætlað að „styrkja vopnabúr verkalýðshreyfingarinnar og annarra almannasamtaka í átökum við auðmagnið“.  Í blaðinu verður fjölbreytt efni um verkalýðshreyfinguna, hagsmuni launafólks og sögu hennar.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, Grétar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir

Stjórn sjóðsins: Kristján Þórður Snæbjarnarson Grétar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir

Author

Tengdar fréttir