Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Verðlagseftirlit ASÍ kannar verð á innlendum og innfluttum landbúnaðarvörum

Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands mun á næstunni gera verðkönnun á innlendum og innfluttum landbúnaðarvörum og skila niðurstöðum sínum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þjónustusamningur þessa efnis var undirritaður í dag milli Auðar Ölfu Ólafsdóttur, sérfræðings hjá ASÍ og Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Verðkönnunin er gerð í tengslum við m.a. breytingar á lagaumhverfi um úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur sem gerðar voru í desember sl. Samkvæmt þeim var ávinningur sem skapast með þeim takmörkuðu gæðum sem tollkvótar eru færður í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.

Um áramótin voru gerðar breytingar á lagaumhverfi um úthlutun tollkvóta. Þessu er m.a. ætlað að skila sér til hagsbóta fyrir neytendur, dreifingaraðila og framleiðendur. Með þessu verkefni verður því fylgt eftir enda mikilvægt að stuðla að því að lækkaðar álögur á vörur skili sér í lægra verði til neytenda. 

Mánaðarlegar verðkannanir
Tilgangur verkefnisins er að styrkja eftirlit á markaði með því að fylgjast sérstaklega með samkeppni og verðþróun á dagvörumarkaði. ASÍ mun gera mánaðarlegar verðkannanir í verslununum og skila ráðuneytinu skýrslu 1. október 2020. Hlutverk þeirra verður að safna upplýsingum um verð á innfluttum og innlendum landbúnaðarvörum í verslunum í hvert sinn.

Samningsaðilar eru sammála um það markmið að eftir gildistíma samnings þessa verði verkefninu haldið áfram og um það verði sérstaklega samið síðar.

Tengdar fréttir