Samtök launafólks í Norræna verkalýðssambandinu og þýska alþýðusambandinu styðja markmið stjórnvalda ríkjanna í loftslagsmálum og nauðsyn þess að ná kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina. Til að svo geti orðið eru kerfisbreytingar óumflýjanlegar. Þær verða að fara fram á forsendum réttlátra umskipta þannig að bæði kostnaði og ábata við þær breytingar sem framundan eru verði deilt með sanngjörnum hætti. Til að tryggja þetta leggja ASÍ, BSRB og BHM til að sérstökum vinnuhópi verði komið á fót sem hafi það hlutverk að móta stefnu um réttlát umskipti hér á landi í þríhliða samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, stjórnvalda og atvinnurekenda.
Móta þarf heildstæða stefnu um fjárfestingar í aðlögun og tækniþróun, menntamálum, vinnumarkaðsaðgerðum og afkomutryggingu sem mótvægi við þeim breytingum sem munu verða á íslenskum vinnumarkaði vegna umskipta til kolefnishlutleysis. Í nýrri skýrslu ASÍ, BSRB og BHM um loftslagsmál er farið yfir losun frá íslenska hagkerfinu, stjórntæki hins opinbera og tillögur verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti.
Í skýrslunni segir að þó bandalögin þrjú sem að henni standa styðji markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vanti mikið upp á trúverðugleika áætlana um samdrátt í losun í landbúnaði og fiskveiðum. Þær aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar muni ekki duga til að uppfylla markmið stjórnvalda um 40 prósenta samdrátt í losunum fyrir lok árs 2030. Í desember 2020 uppfærði ríkisstjórnin markmið Íslands og stefna nú að 55 prósent samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda. Ljóst er að slíkum árangri verður ekki náð nema í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Veigamestu aðgerðir stjórnvalda hingað til snúa að losun frá samgöngum með skattlagningu á jarðefnaeldsneyti og bíla sem brenna því en skattaívilnunum af vistvænum farartækjum og rafhleðslustöðvum. Skýrsluhöfundar benda á að þessar aðgerðir séu hlutfallslega mest íþyngjandi fyrir lágtekjuhópa enda nýtist ívilnanirnar helst fólki í efri tekjuhópum. Nauðsynlegar mótvægisaðgerðir skorti.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að tæplega 90 prósent allrar losunar í íslenska hagkerfinu árið 2017 kom frá atvinnugreinum þar sem um fimmtungur vinnandi fólks í landinu starfar. Þær atvinnugreinar sköpuðu um 25 prósent af heildarframleiðsluvirði árið 2017.
Réttlát umskipti – Leiðin að kolefnislausu samfélagi (Ísland) – skýrslan
Slæðukynning Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, hagfræðings hjá BSRB
Drífa Snædal, forseti ASÍ:
„Það eru engin störf á dauðri plánetu og því er nauðsynlegt að við öxlum ábyrgð og tökum virkan þátt í þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til að beina okkur á rétta braut í umhverfismálum. Fyrirsjáanlegar breytingar í átt að kolefnishlutlausu hagkerfi verða að gerast á forsendum allra, ekki bara sumra. Við krefjumst réttlátra umskipta öllum til heilla.“
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB:
„Loftslagsbreytingar og baráttan gegn þeim munu hafa víðtæk samfélagsleg áhrif. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að aðgerðirnar feli í sér réttlát umskipti með nánu samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Í dag eru þeir efnameiri að fá skattaívilnanir vegna orkuskipta í samgöngum en betri almenningssamgöngur eru á 15 ára plani. Þetta er dæmi um forgangsröðun sem er ekki í anda réttlátra umskipta. Við þurfum að tryggja að bæði byrðar og ávinningur deilist niður með sanngjörnum hætti.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM:
„Eigi Ísland að eiga möguleika á að ná settum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er nauðsynlegt að stórauka samvinnu stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um nauðsynlegar aðgerðir hér á landi. Lykillinn að árangri eru fjárfestingar í grænum lausnum og góðum störfum fyrir vinnandi fólk. Leiðarljós okkar þarf að vera besta fáanlega þekking á hverjum tíma. Nýtum mannauðinn til þess að stöðva hamfarahlýnunina.“
Um skýrsluna:
Skýrslan „Réttlát Umskipti. Leiðin að kolefnislausu samfélagi“ er gefin út af Alþýðusambandi Íslands, BSRB og Bandalagi háskólamanna. Hún er hluti af samstarfsverkefninu „Leiðin að kolefnislausu samfélagi – Samstarf stéttarfélaga á Norðurlöndunum og í Þýskalandi um réttlát umskipti“ sem norræn og þýsk bandalög stéttarfélaga unnu sameiginlega.