Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Við vinnum með íslensku

Mímir-símenntun og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir ráðstefnu í gær, fimmtudaginn 29. febrúar sem bar yfirskriftina Við vinnum með íslensku. Um 120 manns sóttu ráðstefnuna þar sem efni var að finna leiðir að öflugu lærdómssamfélagi fyrir íslenskunám innflytjenda.  

Eftir því sem þátttaka innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði eykst verður þörfin á markvissri íslenskukennslu sífellt meiri. Á ráðstefnunni var einblínt á helstu áskoranir samfélags og vinnumarkaðar þegar kemur að inngildingu innflytjenda og því að kenna/læra nýtt tungumál í nýju landi.   

Fjöldi fyrirlesara hélt tölu á ráðstefnunni en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra setti hana. 

 „Fólki með erlendan bakgrunn á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Verkefni okkar sem samfélags, sem tekur á móti þessum mannauði, hlýtur að vera að fækka hindrunum og lækka þröskulda á vegi þeirra einstaklinga sem velja að setjast að hér á landi, sagði Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.  

Framkvæmdastjóri Mímis, Sólveig Hildur Björnsdóttir, tók í sama streng: „Við stóðum fyrir þessari ráðstefnu til að leiða alla saman þar á meðal stjórnvöld, þjónustuveitendur, fræðsluaðila, atvinnurekendur og aðra sem málefnið varðar. Við viljum vinna saman að því að finna sameiginlegar lausnir þannig að öll fái tækifæri til að læra tungumálið. Innflytjendur eru stór og ómissandi hluti af íslensku samfélagi. Á endanum er það á ábyrgð okkar allra að skapa tækifæri og fækka hindrunum fólks til að nýta þekkingu sína og getu til að læra eitthvað nýtt, til að læra íslensku og fá tækifæri til að nota hana. Við getum öll lagt okkar af mörkum til að skapa hvetjandi málumhverfi sem er einn af lykilþáttunum fyrir virkri þátttöku í íslensku samfélagi. Það er ekki aðeins skylda okkar heldur líka tækifæri til að auðga og styrkja samfélagið og vinna gegn fordómum og mismunun”.  

Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt og fjölluðu um málefnið frá ólíkum sjónarhorni. Gísli Hvanndal Ólafsson, verkefnastjóri, og Mirko Garofalo, aðjunkt í íslensku sem öðru máli hjá Háskóla Íslands, fjölluðu um Þróunarverkefni í íslensku hjá HÍ. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, fór yfir Stöðu innflytjenda á vinnumarkaði, Joanna Kleszczewska, leikskólakennari sagði frá sinni reynslu af íslenskunámi og Joanna Dominiczak, fagstjóri íslenskunáms hjá Mími-símenntun fór yfir nýjungar og áskoranir er varða íslenskukennslu. Að auki fór Thomas Liebig, sérfræðingur hjá OECD yfir tillögur OECD að því er varðar tungumálaþjálfun hjá fullorðnum innflytjendum og Matilde Grünhage-Monetti, sérfræðingur Language for Work teymis hjá European Center for Modern Languages, fjallaði um reynslu annara landa, þar á meðal Þýskalands, af tungumálakennslu og inngildingu.  

Að erindunum loknum voru settar upp vinnustofur þar sem allir þátttakendur ráðstefnunnar tóku þátt í umræðum um hugmyndafræði og þróun íslenskukennslu og hvernig best væri að hátta íslenskukennslu fyrir fullorðna einstaklinga. Niðurstöður vinnustofanna munu nýtast við enn frekar þróun á íslenskukennslu.

Tengdar fréttir