Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Vorskýrsla KTN 2024 – ráðstöfunartekjur stóðu í stað í árslok 2023

Í síðustu viku kom út vorskýrsla kjaratölfræðinefndar 2024. Í skýrslunni er áhersla lögð á umfjöllun um launaþróun eftir mörkuðum og heildarsamtökum í nýliðinni kjaralotu sem náði til tímabilsins frá nóvember 2022 til janúar 2024 auk umfjöllunar um launastig á árinu 2023, kjarasamninga, efnahagsmál og sérkenni íslensks vinnumarkaðar.

Grunnlaun á vinnumarkaði hækkuðu að jafnaði um 11,1% í síðustu kjarasamningslotu. Þá var almennt samið um blandaða leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana og voru hlutfallshækkanir því að jafnaði meiri hjá hópum þar sem laun eru að meðaltali lægri. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur grunntímakaups, sem best endurspeglar umsamdar launahækkanir í kjarasamningum, um 2,6% í síðustu kjaralotu. Meðalheildarlaun allra fullvinnandi á vinnumarkaði voru 935 þúsund krónur í fyrra. Meðallaun voru hæst hjá ríkinu hvort sem litið er til grunnlauna, reglulegra launa eða heildarlauna en launadreifing er meiri á almenna markaðnum en hjá hinu opinbera.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman í fyrra en sé horft til stöðunnar í árslok er breytingin óveruleg frá fyrra ári. Verðhækkanir og háir vextir leiddu til þess að launahækkanir skiluðu heimilum ekki kaupmáttaraukningu. Eiginfjárstaða heimila batnaði á síðustu árum samhliða hækkun fasteignaverðs og hagstæðra vaxtakjara. Aukin vaxtabyrði jók sókn í verðtryggð lán að nýju og að óbreyttu mun vaxtabyrði heimila með óverðtryggð lán, sem tekin voru með á árunum 2020 – 2021 með ákvæðum um endurskoðun vaxta, aukast talsvert á næstunni.

Mikill munur er á stöðu og húsnæðiskostnaði heimila á eigna- og leigumarkaði. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2021 voru 27% heimila á leigumarkaði með íþyngjandi húsnæðiskostnað en hlutfallið var mun lægra eða 8,9% meðal fasteignaeigenda. Hluta skýringarinnar er að leigjendur eru að meðaltali tekjulægri en eigendur. Þá dró úr framboði af hentugu húsnæði á leigumarkaði árin 2022 og 2023. Möguleikar hópanna til að bregðast við breyttum aðstæðum og verðhækkunum eru einnig ólíkir, m.a. vegna eignamyndunar, hagstæðra vaxtakjara og bættrar eiginfjárstöðu fasteignaeigenda síðustu ár. Fasteignaeigendur hafa á undanförnum árum byggt upp aukið eigið fé vegna hækkunar fasteignaverðs umfram skuldir. Þau sem nutu þessarar eignarmyndunar eru því í stöðu til að mæta breyttum aðstæðum með því að endurfjármagna lán sín eða gera breytingar á húsnæðishögum. Hækkun húsnæðisverðs umfram laun á árunum 2021 og 2022 gerir aftur á móti fyrstu kaupendum erfiðara að komast inn á fasteignamarkaðinn en á móti hækkaði leiguverð minna en fasteignaverð og laun á síðustu árum.

Dreifing grunnlauna, reglulegra launa og heildarlauna fullvinnandi hjá ASÍ árið 2023, mánaðarlaun í þúsundum króna

Nýir kjarasamningar voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði fyrri hluta marsmánaðar með gildistöku frá 1. febrúar 2024 til janúarloka 2028 og má merkja áhrif þeirra kjarasamninga í launavísitölu. Líkt og í síðustu samningum var farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana auk sérstakra hækkana launataxta. Flestir kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði runnu út í lok mars og undirrituðu aðildarfélög ASÍ og BSRB kjarasamninga uppúr miðjum júní. En samningum stórra hópa á opinbera markaðnum er enn ólokið.

Starfandi fólki á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað hratt síðustu ár samhliða auknum hagvexti. Atvinnuleysi er nokkuð stöðugt, eftirspurn eftir fólki er mikil og enn ríkir nokkur spenna á vinnumarkaði þó heldur dragi úr henni. Í alþjóðlegum samanburði er atvinnuleysi lágt og atvinnuþátttaka mikil hér á landi. Vinnutími er tiltölulega stuttur, meðallaun eru há og dreifing launa er lítil í alþjóðlegum samanburði hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum. Stéttarfélagsaðild og þekja kjarasamninga er hér ein sú mesta í heimi.

Kjaratölfræðinefnd (KTN) er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um gerð og hagnýtingu talnaefnis um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. KTN gefur út tvær skýrslur á ári, að vori og hausti og er þetta áttunda skýrsla nefndarinnar. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, forsætisráðuneyti, félags- og vinnumálamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Hagstofu Íslands.

Vorskýrsla KTN 2024 í heild

Kynningarefni á vorskýrslu KTN 2024

Samantekt á helstu niðurstöðum úr vorskýrslu KTN 2024

Á vef kjaratölfræðinefndar má auk þess nálgast ítarlegt talnaefni um launaþróun, launastig og launadreifingu.

Author

Tengdar fréttir