Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda í atkvæðagreiðslu Eflingar um verkfallsaðgerðir gegn Reykjavíkurborg eða 95,5% hefur samþykkt verkfallsboðun. Atkvæðagreiðslan stóð yfir í fimm daga og lauk á hádegi í dag, sunnudaginn 26. janúar.
Metþátttaka var í atkvæðagreiðslunni eða 59,2%. Alls voru 1.894 félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg á kjörskrá að þessu sinni. Af þeim greiddi 1. 121 atkvæði eða 59,2% eins og áður segir. Af greiddum atkvæðum samþykkti 1.071 eða 95,5% verkfallsboðun. Alls voru 34 á móti eða 3,1% og 16 tóku ekki afstöðu eða 1,4%.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnaði því að félagsmenn hafi tekið undir tillögu samninganefndar um boðun verkfallsaðgerða.
„Ég hef fundið fyrir gríðarlegum baráttuvilja meðal starfsmanna í fjölmörgum heimsóknum mínum á vinnustaði borgarinnar síðan í haust. Fólk er orðið langþreytt á því að vinna fyrir sultarlaunum við vaxandi álag og erfiðar aðstæður. Metkosningaþátttaka, svo ekki sé talað um yfirgnæfandi vilja til aðgerða, sýnir svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið og höfum fjöldann á bakvið okkur. Með þennan vind í seglunum eru okkur allir vegir færir í baráttunni við borgina.“
Með atkvæðagreiðslunni hafa félagsmenn Eflingar samþykkt verkfallsboðun gagnvart Reykjavíkurborg. Formleg verkfallsboðun verður afhent borgaryfirvöldum og ríkissáttasemjara fyrir hádegi á morgun, mánudaginn 27. janúar.
Skipulag verkfallsaðgerða verður með eftirfarandi hætti:
• Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
• Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
• Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
• Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
• Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
• Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.