4,1% verðbólga í september

Höfundur

Ritstjórn

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% milli mánaða í september og mælist verðbólga því 4,1% samkvæmt nýjum mælingu Hagstofu Íslands. Ársverðbólga hækkar því um 0,3 prósentur milli mánaða. Hækkun ársverðbólgunnar skýrist bæði af hækkun vísitölunnar í september en ekki síður af þeirri staðreynd að úr ársmælingunni fellur nú mælingin í september 2024 þegar vísitalan lækkaði um 0,24 prósentur þegar skólamáltíðir voru gerðar gjaldfrjálsar. Sé horft fram hjá áhrifum húsnæðiskostnaðar mælist verðbólgan 3,2%. 

Helstu drifkraftar verðhækkana í september voru m.a. kostnaður vegna eigin húsnæðis sem hækkaði um 0,9% (0,18% vísitöluáhrif) og hækkanir á fötum og skóm um 2,9% (0,1%) sökum útsöluloka. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda um 15,4% (-0,39%) milli mánaða. 

Matvara hækkar á ný

Eftir að hafa staðið í stað síðustu tvo mánuði mældust þónokkrar hækkanir á matvöruverði í september, eða 0,5% samkvæmt Hagstofunni. Er mælingin í samræmi við mælingu verðlagseftirlits ASÍ en samkvæmt nýjustu tölum eftirlitsins hefur verðlag hækkað um 0,46% frá meðalverði ágústmánaðar. Á ársgrundvelli hefur verð á mat- og drykkjarvöru hækkað um 6,2% eða töluvert umfram almennar verðlagshækkanir. 

Verðhækkanir á matvöru í september skýrast af nokkrum þáttum, en þó vega hækkanir á mjólkurvörum sem rekja má til ákvörðunar verðlagsnefndar búvara þungt ásamt hækkunum á svínakjöti, nautakjöti og sælgæti.

Verðhækkanir á svínakjöti og sælgæti í september

Úr verðathugunum Verðlagseftirlitsins má sjá dæmi um umtalsverðar hækkanir á svínakjöti. Alls mældist vegin verðhækkun á svínakjöti um 4,7% milli mánaða sem er mesta hækkun í einstökum vöruflokki frá ágúst. Meðal verðhækkana á svínakjöti má nefna rifjasteik frá Stjörnugrís, sem kostaði 1999kr í Krónunni í fyrra en kostar nú 2370kr (18,5% árshækkun). Grísaskanki frá Stjörnugrís kostaði 849kr í Bónus í fyrra en kostar nú 998kr (17,5% árshækkun). 

Enn mælast verðhækkanir á sælgæti. Verðlagseftirlitið undanfarin misseri vakið athygli á miklum verðhækkunum á súkkulaði á Íslandi, bæði innlendu og erlendu. Þessar hækkanir hafa að hluta verið raktar til verðhækkana á kakói og sykri. Nýjustu mælingar gefa til kynna að verð á sælgæti haldi áfram að hækka. Þetta er nokkuð óvænt í ljósi þess að verð á bæði kakói og sykri hefur lækkað umtalsvert síðustu misseri ásamt hagfelldri þróun á gengi krónunnar. 

Til dæmis hækkar Nóa lakkrískurl í Bónus úr 429 í 485kr milli mánaða (37% árshækkun), 300gr af konsúm súkkulaði í Bónus og Krónunni úr 829-830 í 929-930kr (34% árshækkun), og Góu súkkulaðirúsínur hækka um 10% í báðum verslunum sömuleiðis (13-18% árshækkun).

Ólíkt súkkulaði ætti verð á ávaxtahlaupi að vera óháð verðþróun á kakói. Engu að síður hefur verð á hlaupi hækkað umtalsvert frá innlendum framleiðendum. Til dæmis hækkar Góu bangsahlaup í Bónus um 6% milli mánaða (13% árshækkun). Sama vara hefur í Krónunni hækkað um 17% á einu ári. Nóa trítlar hafa frá september í fyrra hækkað um 19-23% í Bónus og Krónunni. Athygli vekur að slíkar hækkanir sjást ekki í vörum frá erlendum framleiðendum en sem dæmi hefur verð á Haribo-sælgæti hefur staðið í stað undanfarið ár og verð á Trolli og Sour Patch hlaupi hefur lækkað.

Tengdar fréttir

  • Ný Airpods kosta 40% meira á Íslandi

    Airpods Pro 3 kosta 28-65% meira á Íslandi en í…

    Ritstjórn

    22. sep 2025

  • Ný grein í Vísbendingu: Kílómetragjald og samkeppni á eldsneytismarkaði. 

    Á dögunum birtist grein í Vísbendingu - vikuriti um viðskipti,…

    Ritstjórn

    15. sep 2025

  • Verðlag í Extra hækkar snarplega í júlí 

    Verðlag í Extra hækkaði í júlí um tæp 7%, sem…

    Benjamin Julian

    29. ágú 2025