Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

5,2% atvinnuleysi í febrúar

Atvinnuleysi var 5,2% í febrúar samkvæmt skrám Vinnumálastofnunar og hélst óbreytt frá fyrri mánuði. Þetta var meðal annars til umfjöllunar í síðasta mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar. Alls voru rúmlega tíu þúsund án atvinnu í lok febrúar, þar af 5791 karl og 4420 konur. Atvinnuleysi mælist hæst á Suðurnesjum, 9,2% en að jafnaði er atvinnuleysi 5% á landsbyggð borið saman við 5,3% á höfuðborgarsvæði.

Nokkuð hefur dregið úr atvinnuleysi frá því það mældist sem hæst, 11,6% í byrjun síðasta árs. Atvinnuleysi í heimsfaraldri var að hluta framleiðslugeta sem lá í dvala þegar ferðaþjónusta starfaði undir fullri getu sökum ferðatakmarkana og sóttvarnaraðgerða. Við afléttingu ferðatakmarkana hjaðnaði atvinnuleysi hratt og hefur frá síðasta hausti verið svipað og það var fyrir heimsfaraldur.  

Nokkuð hefur borið á umræðu um að fyrirtæki fái ekki fólk til starfa og að atvinnuleysistryggingar letji fólk til vinnu. Þessar fullyrðingar eru þó illa studdar með gögnum og eru í mótsögn við það að atvinnuleysi hafi að jafnaði verið minna  hér á landi en í nágrannalöndum og atvinnuþátttaka með því mesta  sem þekkist. Hið rétta er að á vinnumarkaði hefur dregið hratt úr atvinnuleysi og lausum störfum fer fækkandi. Þróunin er til marks um að áhrif heimsfaraldurs hafi gengið hratt til baka samhliða afléttingum. Þó má velta því upp hvort misræmi fari vaxandi á vinnumarkaði þar sem framboð vinnuafls sé ekki í takt við vinnuaflseftirspurn. Slíkt þróun gæti haft áhrif til aukins kerfislægs atvinnuleysis.

Dregur úr fjölda lausra starfa

Hlutfall lausra starfa var 2,4% á fjórða ársfjórðungi sem jafngildir um 5400 lausum störfum. Lausum störfum hefur fækkað nokkuð hratt undanfarið en flest mældust þau 9 þúsund á öðrum ársfjórðungi 2021, fljótlega eftir að dregið var úr ferðatakmörkunum vegna heimsfaraldurs. Þetta kemur fram í mati Hagstofunnar á fjölda lausra starfa í hagkerfinu en frá byrjun árs 2019 hefur Hagstofan haldið úti svokallaðri starfaskráningu (e. job vacancy survey). Könnunin er framkvæmd ársfjórðungslega og nær yfir alla lögaðila á Íslandi.

Sérstaklega hefur dregið hratt úr þeim fjölda lausra starfa sem komu til í ferðaþjónustu við slökun ferðatakmarkana. Hlutfall lausra starfa í ferðaþjónustu mældist þannig 13,8% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs en er í dag um 2,6%. Lausum störfum fækkaði þannig um 2200 á skömmum tíma. Hlutfall lausra starfa í ferðaþjónustu er í dag sambærilegt við hagkerfið í heild sinni. 

Séu laus störf skoðuð eftir atvinnugreinum er mest um þau í sérhæfðari starfsemi, t.d. mannvirkjagerð, sérhæfðri þjónustu og í upplýsingageira og fjarskiptum. Þar er hlutfall lausra starfa um 6% borið saman við 2,4% í hagkerfinu í heild sinni. Lægst mælist hlutfall lausra starfa hjá hinu opinbera, þ.e. í fræðslu, heilbrigðis eða félagsþjónustu, í fjármálageira og í landbúnaði og sjávarútvegi.

Author

Tengdar fréttir