Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

6.507 kr. verðmunur á matarkörfunni

Matarkarfan var ódýrust hjá Bónus en dýrust í Hagkaup í könnun verðlagseftirlitsin ASÍ sem framkvæmd var miðvikudaginn 3. september. Þannig kostaði matarkarfan 21.644 kr. hjá Bónus en 28.151 kr. í Hagkaup og var hún því 30% dýrari í Hagkaup en í Bónus. Krónan var með næst lægsta verðið á matarkörfunni, 22.399 kr. og Iceland næst hæsta, 26.835 kr.

Matarkarfan samanstendur af 49 algengum neysluvörum til heimilisins úr öllum helstu vöruflokkum.

Matarkarfan ódýrust í Bónus en dýrust í Hagkaup
Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni en Hagkaup hæsta verðið eins og áður segir. Munurinn á Bónus og Krónunni, sem var með næst lægsta verðið, var 22.399 kr. sem er 3%. Þriðja ódýrasta karfan var hjá Super 1 en þar kostaði hún 23.360 og því 8% dýrari en í Bónus. Svipað verð var á vörukörfunni í Nettó, Kjörbúðinni og Fjarðarkaupum. Þannig kostaði vörukarfan 24.036 kr. í Nettó, 24.182 kr. í Kjörbúðinni og 24.208 kr. í Fjarðarkaupum og er verðmunurinn á matarkörfunum í þessum verslunum rétt um eða yfir 100 kr. Karfan var næst dýrust hjá Iceand þar sem húnkostaði 26.835 kr. sem er 24% hærra verð en í Bónus. Hagkaup trónir á toppnum með hæsta verðið 28.151 kr. sem er eins og áður sagði 30% hærra verð en í Bónus.

Í mörgum tilfellum var munur á hæsta og lægsta verði mikill. Þannig var kílóverðið á lambalæri 121% hærra í Hagkaup þar sem verðið var hæst 2.199 kr. en í Kjörbúðinni, 997 kr. þar sem verðið var lægst. Mikill munur var á kílóverðinu á Solgryn haframjöli sem var 119% hærra hjá Iceland þar sem verðið var hæst, 699 kr., en hjá Hagkaup þar sem verðið var lægst. Einnig var mikill verðmunur á Nesquick kakómalti en 400 gr. poki var 75% dýrari hjá Iceland þar sem verðið var hæst, 419 kr. en í Bónus, 239 kr., þar sem verðið var lægst. Þá var hálfs líters flaska af Appelsíni 72% dýrari hjá Hagkaup þar sem verðið var hæst, 239 kr. en í Fjarðarkaup þar sem verðið var lægst, 139 kr. Almennt mátti finna mikinn verðmun í öllum vöruflokkum en minnsta verðmuninn mátti finna í flokki mjólkurvara.

Sjá nánar í töflu.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland, Kjörbúðinni, Super 1 og Hagkaupum. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tengdar fréttir