Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Verðmunur á bókum er í einhverjum tilfellum næstum þrefaldur, jafnvel þegar bókin sem um ræðir er ekki til sölu í lágvöruverðsverslunum. Mikill munur er á bókaverði, ekki bara milli dagvöruverslana og bókabúða, heldur líka milli bókabúða. Penninn-Eymundsson og A4 voru að jafnaði dýrustu staðirnir til að kaupa bækur samkvæmt úttekt verðlagseftirlitsins.

Langstærsta bókaúrvalið var hjá Forlaginu, Bóksölu stúdenta og hjá Eymundsson, með um 750-800 bækur til skoðunar í þessari könnun. Næst komu dagvöruverslanirnar Bónus, Nettó og Hagkaup með 170-200 bækur. Rúmlega 60 bækur voru til í A4, helst barnabækur, og um 30 í Nexus. Þessi samanburður endurspeglar ekki í öllum tilfellum vöruúrval verslananna í heild, heldur fjölda bóka sem voru samanburðarhæfar.

Alls voru 800 bækur til skoðunar í Eymundsson. Þótt verslunin hafi að jafnaði verið í dýrari kantinum var engu að síður lægsta verðið á 25 bókum þar. Til dæmis fékkst bókin Maðurinn með strik fyrir varir þar á 1.999kr, en hún kostaði 5.490kr hjá Forlaginu. Aftur á móti seldi Forlagið Ást Múmínálfanna á 999kr, en hún kostaði 2.599kr hjá Eymundsson. Bóksala stúdenta bauð Björn Pálsson: Flugmaður og þjóðsagnapersóna á 2.995kr, en hún kostaði 8.599kr í Eymundsson. En Allt um heilsuna: Hugmyndir og góð ráð fyrir lífið sjálftkostaði 2.295kr í Bóksölunni en aðeins 990kr í Eymundsson. Forlagið verðlagði hana á 890kr en hún er sem stendur uppseld hjá þeim.

Með öðrum orðum: verðmunur á stökum bókum getur verið annar en meðalverðin segja til um. Upplagt er að nota Nappið, smáforrit verðlagseftirlitsins, eða heimasíðu þess, verdlagseftirlit.is, til að fletta upp verði á bókum áður en verslað er.

Bónus og Nettó í verðstríði

Hagkaup, Nettó og Bónus hafa byrjað jólabókasölu sína og var verð á nærri tvö hundruð bókum skoðað í verslununum þremur. Verðstríð á jólabókum hefur verið í gangi milli Bónus og Nettó og er vart sjónarmunur á bókaverði verslananna tveggja; Í Bónus voru bækur að meðaltali 0,03% dýrari en lægsta verð og í Nettó 0,3%. Í Hagkaup var verð á bókum að meðaltali 12% hærra en lægsta verð.

Spil dýrust í Leikfangalandi

Bónus bauð lægsta verð á spilum en með afar takmörkuðu úrvali. Aðeins fundust 17 spil til samanburðar þar en 52 spil voru skoðuð í Spilavinum, 45 í Hagkaup, 42 í Nexus og ELKO, 30 í Margt og mikið, 29 í A4, 25 í Leikfangalandi og 11 í Eymundsson. Aftur er vert að taka fram að þetta eru ekki öll spilin sem fást í umræddum verslunum – úrvalið getur eðlilega verið mun meira, en hér var sjónum beint að þeim spilum sem finna mátti víðast.

Í Leikfangalandi voru spil að jafnaði dýrust, eða 42% dýrari en þar sem þau voru ódýrust. Í A4 voru spil mun hagkvæmari kaup en bækur, eða um 8% dýrari en þar sem sömu spil voru ódýrust.

 

Costco ýmist með dýrari eða ódýrari bækur

Einhverjar bækur úr samanburðinum mátti finna líka í Costco, en þær voru ýmist ódýrari eða dýrari en í öðrum verslunum sem til athugunar voru nú. Bókin InnSæi var til dæmis helmingi ódýrari en í Eymundsson, 2.299kr á móti 4.599kr. Hins vegar var Pési og Pippa – stóra orðabókin 20% ódýrari í Eymundsson en í Costco – 3.999 á móti 4.999kr. Forlagið seldi þá bók á 3.590kr, en hins vegar kostaði Lára bakar 1.699kr í Costco en 2.490kr í Forlaginu. Og svo framvegis. Meðaltöl gefa litlar upplýsingar þegar um svo lítið úrval og svo fjölbreytilegan verðmun er að ræða.

Þegar verð á 90 Legó-kössum var borið saman milli Hagkaup, Coolshop.is, Leikfangalands, Costco og Kubbabúðarinnar var verð iðulega lægst í Hagkaup og Kubbabúðin skammt undan. Þrjár vörur voru til í Costco – stærri kassar sem voru fjórðungi til helmingi ódýrari en í öðrum verslunum.

Author

Tengdar fréttir