ASÍ á fundi Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar um Græna sáttmálann og réttlát umskipti – Evrópusambandið sakað um aðgerðaleysi, svik og árásir á kjör launafólks – Milljónir starfa hafa tapast í evrópskum iðnaði
Texti og myndir: Auður Alfa Ólafsdóttir
Þann 6. febrúar síðastliðinn fundaði nefnd Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar (ETUC) um réttlát umskipti í Brussel en Alþýðusamband Íslands (ASÍ ) á fulltrúa í nefndinni. Undirrituð sótti fundinn ásamt fjölda annarra fulltrúa stéttarfélaga og alþýðusambanda frá hinum ýmsu löndum innan Evrópusambandsins.
Efni fundarins var Græni iðnaðarsáttmálinn (e. Clean Industrial Deal), leiðarvísir Evrópusambandsins fyrir aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness Compass) sem og aðgerðir til að styðja við launafólk og stuðla að réttlátum umskiptum.
Græni iðnaðarsáttmálinn og leiðarvísirinn fyrir aukna samkeppnishæfni eru hluti af víðtækari stefnu ESB til að gera evrópskan iðnað kolefnishlutlausan og styrkja á sama tíma samkeppnishæfni hans með því að veita fjárhagslegan stuðning og hvata vegna grænna fjárfestinga, stuðla að sjálfbærri notkun efna og auðlinda og þróa hæfni vinnuaflsins til að styðja við umskiptin.
Meðfram Græna iðnaðarsáttmálanum áætlar framkvæmdastjórnin að setja fram vegvísi um gæða störf ( e. Quality Jobs Roadmap) sem á að styðja við réttlát umskipti og stuðla að sköpun góðra starfa, sanngjörnum og mannsæmandi launum, góðum vinnuaðstæðum, aukinni þjálfun og stuðningi við starfsskipti, fyrir launafólk sem og sjálfstætt starfandi.
Á fundinum var vegvísirinn einnig ræddur sem og nauðsyn þess að Evrópusambandið skuldbindi sig enn frekar til að ná þeim markmiðum sem hann felur í sér með því að gefa út bindandi tilskipun.
Þúsundir iðnaðarmanna mótmæltu neikvæðum áhrifum umskiptanna á launafólk
Í stað venjubundins hádegishlés var okkur, sem sátu fundinn, mokað af stað í neðanjarðarlest til að taka þátt í mótmælum. Mótmælin voru á vegum evrópskra stéttarfélaga iðnaðarmanna þar sem þúsundir starfsmanna stáliðnaðarins höfðu safnast saman fyrir utan bækistöðvar Evrópusambandsins í Brussel til að mótmæla fækkun starfa og skorti á stuðningi við þá sem hafa misst störfin sín í umskiptunum sem nú standa yfir í iðnaði í Evrópu.
Lætin frá mótmælunum heyrðust langa vegu og blaktandi fánar, grænn reykur og skærlitir einkennisbúningar mótmælenda tóku á móti okkur þegar við gengum inn á torgið. Krafturinn og samstaðan sem birtist meðal mótmælanda sem voru mættir til að krefjast réttlætis í yfirstandandi breytingum á hagkerfi og atvinnulífi hafði þau áhrif á undirritaða að hugsanir um svengd hurfu eins og dögg fyrir sólu.
![](https://vinnan.is/wp-content/uploads/2025/02/IMG_9245-1024x768.jpg)
Í ræðum sínum sögðu forsvarsmenn stéttarfélaga iðnaðarmanna sem stóðu fyrir mótmælunum að fyrirhugaðar aðgerðir Evrópusambandsins fælu í sér árás á kjör og vinnuaðstæður launafólks og að hlutur launa í auðmyndun hefði minnkað jafnt og þétt undanfarin ár. Þá kölluðu þeir eftir aukinni fjárfestingu í iðnaði, samkeppnishæfu orkuverði og skýrri áætlun um fjölgun góðra starfa sem styðja við mannsæmandi kjör. Að auki kröfðust þeir stuðnings við það starfsfólk sem missir vinnuna og/eða þarf að færa sig á milli starfa vegna umskiptanna sem og aukins samráðs við launafólk og fulltrúa þeirra.
Milljón iðnaðarstörf tapast í Evrópu og alda óánægju vegna aðgerðarleysis
Á skiltum mótmælendanna mátti lesa yfirskriftir eins og „Bjargið stálinu okkar“ og „Störf okkar ráðast af ákvörðunum ykkar!“ en yfir 100.000 manns hafa misst störf sín undanfarna mánuði í fyrirtækjum eins og Audi, Wolkswagen og Northvolt. Bylgja uppsagna hefur riðið yfir í mörgum lykilgeirum atvinnulífsins í Evrópu og fækkaði störfum í framleiðslu um 2,3 milljónir í ríkjum ESB frá 2008-2023. Þar af hvarf ein milljón starfa frá 2019-2023 en ASÍ greindi frá fundi evrópskra verkalýðsfélaga um málið í desember.
Hingað til hefur Evrópusambandinu gengið illa að ná fram markmiðum sínum um réttlát umskipti samhliða breytingum á iðnaði, efnahag, orkukerfum og samgöngum sem Græni sáttmálinn (e. European Green Deal) frá 2019 lagði grunninn að. Segja má að Græni iðnaðarsáttmálinn og Leiðarvísir ESB um aukna samkeppnishæfni séu áframhald af honum. Á síðustu árum hefur mikil óánægja blossað upp víða í Evrópu vegna neikvæðra áhrifa umskiptanna á störf, vinnuaðstæður og lífskjör launafólks og skorts á aðgerðum Evrópusambandsins til styðja við viðkvæma borgara og fyrirtæki í breytingunum.
![](https://vinnan.is/wp-content/uploads/2025/02/IMG_9288-1024x768.jpg)
Evrópusambandið skuldbindi sig til að styðja við launafólk og bætt lífskjör
Þann 26. febrúar mun framkvæmdarstjórn ESB kynna efni Græna iðnaðarsáttmálans.
Að mati ETUC felur vegvísirinn í sér mikilvægar aðgerðir sem væru til þess fallnar að styðja við vinnandi fólk og ná félagslegum markmiðum í anda réttlátra umskipta. ETUC kallar þó eftir því að Evrópusambandið láti efndir fylgja orðum og skuldbindi sig til að ná þeim markmiðum sem vegvísirinn felur í sér með því að gefa út tilskipun (e. directive) til aðildarríkja um réttlát umskipti. Slík tilskipun væri bindandi og myndi skuldbinda aðildarríki Evrópusambandsins til að ná þeim markmiðum sem tilskipunin felur í sér. Yfirvöldum í hverju ríki er þó í sjálfsvald sett á hvern hátt og með hvaða leiðum þeim markmiðum er náð.
Nú þegar eru mörg af þeim nýju störfum sem eru að verða til innan Evrópusambandsins af lakari gæðum og með verri kjör en þau störf sem þau hafa leyst af hólmi. Þá hafa markmið Evrópusambandsins um endurmenntun og þjálfun ekki náðst og er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að stemma stigu við neikvæðum afleiðingum umskiptanna á launafólk.
![](https://vinnan.is/wp-content/uploads/2025/02/IMG_9255-1024x768.jpg)
Aukin samkeppnishæfni og grænni iðnaður megi ekki verið á kostnað launafólks
ETUC hefur einnig gangrýnt leiðarvísi Evrópusambandsins að aukinni samkeppnishæfni og lýst yfir áhyggjum af því að hann etji fyrirtækjum í kapphlaup að botninum (e. race to the bottom) þar sem aukin skilvirkni og samkeppnishæfni verði á kostnað launafólks.
Að mati ETUC er hætta á að markmið um réttlát umskipti verði undir ef Evrópusambandið skuldbindur sig ekki til stuðla að réttlátum umskiptum, og að aðgerðir til að auka samkeppnishæfni í iðnaði og ná markmiðum um kolefnishlutleysi, muni leiða til skertra réttinda, lakari lífskjara og verri starfsaðstæðna launafólks í Evrópu.
ETUC kallar einnig eftir að því að Evrópusambandið skilyrði hvers kyns fjárhagslegan stuðning í formi hvata eða ívilnana frá hinu opinbera til fyrirtækja, við félagsleg og umhverfisleg markmið. Þannig megi tryggja að fjármunir skattgreiðenda séu notaðir í þágu almannahagsmuna. Fjölmörg dæmi séu fyrir því að slík skilyrði séu af hinu góða, bæði fyrir atvinnulíf og vinnandi fólk.
Höfundur er sérfræðingur á skrifstofu ASÍ.