Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

Höfundur

Ritstjórn

Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp um breytingu á raforkulögum ófullnægjandi og vekur athygli á að í því er hvorki tekið tilliti til sérstöðu orkumarkaðar á Íslandi né er þar að finna tryggingar gagnvart hækkunum á verði raforku til almennings.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn Alþýðusambandsins um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuöryggi), mál nr. 130/2025 sem birt hefur verið á vef alþingis.

Í umsögninni kveðst Alþýðusambandið fagna sýndum vilja stjórnvalda til að tryggja forgang heimila og almennra notenda að raforku sem birtist í samstarfsyfirlýsingu stjórnvalda og framlagningu þessa frumvarps. Á hinn bóginn er það mat ASÍ að frumvarpið nægi ekki til að tryggja raforkuöryggi þessara notenda.

Engin vernd gagnvart verðhækkunum

Í umsögninni segir:

„Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við að frumvarpið feli ekki í sér neina vernd fyrir heimili og smærri fyrirtæki gegn verðhækkunum á raforku. Lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi er að tryggja að raforka sé á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að frumvarpið tryggi íslenskum heimilum örugga afhendingu á raforku er ekkert í frumvarpinu sem tryggir að sú raforka verði á viðráðanlegu verði og sem kemur í veg fyrir að almenningur og smærri fyrirtæki lendi í verðsamkeppni við stórnotendur raforku.“

Þá er vikið að sérstöðu raforkumarkaðarins sem sé gjörólíkur þeim sem tíðkist á meginlandi Evrópu:

 „Hér á landi eru stórnotendur ráðandi á raforkumarkaði og nota 80% raforkunnar en almenningur og smærri fyrirtæki samanlagt 20%. Þessu er öfugt farið í löndunum í kringum okkur. Þá er nær öll raforka sem framleidd er á Íslandi endurnýjanleg auk þess sem íslenskur raforkumarkaður er lokaður og tíma tekur að setja á fót nýjar virkjanir. Þetta þýðir að ekki er hægt að bregðast við framboðsskorti með skömmum fyrirvara og að hærra orkuverð hefur ekki sömu áhrif á framboð og eftirspurn eftir raforku hér og á meginlandi Evrópu.“

Hætta á að stjórnvöld grafi undan lífskjörum í landinu

Fram kemur sú afstaða Alþýðusambandsins að framganga íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki sé með öllu óskiljanleg:

„Það er með öllu óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld taki ekki tillit til þessarar sérstöðu við mótun lagaumgjarðar fyrir raforkumarkað. Með því hætta stjórnvöld á að grafa undan lífskjörum almennings og auka kostnað smærri fyrirtækja, draga úr samkeppnishæfni þeirra og setja rekstur þeirra sem nota meiri raforku í uppnám. Alþýðusamband Íslands gagnrýnir einnig að ekki hafi verið framkvæmt neitt áhrifamat á þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Slíkt getur ekki talist til vandaðrar stjórnsýslu eða löggjafar og er óábyrgt gagnvart almenningi og fyrirtækjum sem munu verða fyrir áhrifum af lagasetningunni.“

Alþýðusambandið beinir að lokum þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að boðaðar breytingar á hlutverki stórnotenda á raforkumarkaði verði dregnar til baka.

Umsögnina í heild má nálgast hér:

Frétt var breytt 28.3. 2025 vegna ónákvæmni í fyrirsögn.

Tengdar fréttir

  • ASÍ styður frumvarp um breytt búvörulög

    Alþýðusamband Íslands (ASÍ) styður þær breytingar sem boðaðar eru í…

    Ritstjórn

    26. mar 2025

  • Ályktun miðstjórnar um tillögur starfshóps um hagræðingu í ríkisrekstri

    Miðstjórn Alþýðusambands Íslands tekur undir stefnu nýkjörinnar ríkisstjórnar að fara…

    Ritstjórn

    21. mar 2025

  • Gallað frumvarp um breytt raforkulög  

    Frumvarp til laga um um breytingar á raforkulögum og lögum…

    Ritstjórn

    5. mar 2025