Góð störf eru lykillinn að réttlátara samfélagi

Höfundur

Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir

Ný skýrsla frá European Trade Union Institute (ETUI) sýnir að slæm vinnuskilyrði og óheilbrigt vinnuumhverfi hafa veruleg áhrif á heilsu launafólks í Evrópu. Skýrslan, sem ber heitið „Kostnaður vegna hjarta- og æðasjúkdóma og þunglyndis sem rekja má til sálfélagslegs vinnuálags innan Evrópusambandsins“ greinir frá því að álagstengdir þættir á vinnustað geti leitt til hjarta- og æðasjúkdóma og þunglyndis með miklum samfélagslegum kostnaði.1

Fleiri deyja af völdum vinnuálags en vinnuslysa

Áætlað er að um 11.000 dauðsföll í Evrópusambandinu ár hvert megi rekja til sálfélagslegra þátta í vinnuumhverfi — sérstaklega slæmra vinnuskilyrða, langra vinnudaga, lágra launa, lítils stuðning og skorts á sjálfstæði í starfi. Þetta eru fleiri dauðsföll en þau sem rekja má til vinnuslysa, sem voru um 3.300 árið 2022 samkvæmt tölum frá Evrópsku vinnuverndarstofnuninni.

Þá benda niðurstöður til þess að konur verða frekar fyrir áhrifum af sálfélagslegum þáttum og þá sérstaklega vegna skorts á atvinnuöryggi og eineltis á vinnustað. Þær eru einnig líklegri til að upplifa alvarlegt þunglyndi vegna vinnutengdra þátta. Hins vegar eru sjálfsvíg sem tengja má við slæmar vinnuaðstæður og sálfélagslegt vinnuumhverfi mun líklegri hjá karlmönnum.

Mikilvægi góðra starfa og samstöðu launafólks

Ef litið er á Evrópu í heild kemur greinilega fram í skýrslunni að Norðurlöndin standi fremst þegar kemur að því að skapa góðar vinnuaðstæður. Tengslin benda til þess að vel skipulagður vinnumarkaður og aðgangur að stéttarfélögum sé þar lykilþátturinn til að tryggja aðstæður vinnandi fólks. Mikilvægt er að allir sem kjósa að starfa hérlendis fái notið allra þeirra sjálfsögðu vinnu- og mannréttinda sem unnið hefur verið að í áranna rás.

Alþýðusambandið leggur áherslu á að góð störf séu grunnstoð heilbrigðs samfélags. Góð störf einkennast m.a. af:

· Launum sem duga til framfærslu og tryggja öryggi.

· Atvinnuöryggi.

· Heilbrigðu vinnuumhverfi þar sem fólk nýtur allra vinnu- og mannréttinda.

· Jafnvægi milli vinnu og einkalífs, þar sem virðing er borin fyrir frítíma og fjölskyldulífi.

· Nægri mönnun svo starfsfólk njóti góðs vinnuumhverfis.

Höfundur er lögfræðingur á skrifstofu ASÍ.

1 https://mcusercontent.com/432f45140d9f6f58d0cb10aa1/files/e3e0c6ce-784b-4d0b-4eb3-97e5a6ca2cfc/The_costs_of_cardiovascular_diseases_and_depression_2024.pdf)

Tengdar fréttir

  • Nýtt vottunarkerfi fyrir vinnustaði: „Í góðu lagi“

    Fimmtudaginn 26. júni undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn…

    Ritstjórn

    27. jún 2025

  • Vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar kynnt

    Kjaratölfræðinefnd (KTN) hefur gefið út vorskýrslu sína fyrir árið 2025,…

    Ritstjórn

    13. jún 2025

  • Óvinnandi vegur – nánar um aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd

    Í nýlegri grein minni Að vinna eða villast – þegar…

    Kristjana Fenger

    2. jún 2025