Ár er liðið frá því Prís opnaði þann 17. ágúst í fyrra. Verslunin hefur verið ódýrust í samanburði verðlagseftirlitsins frá fyrsta degi og verið vel undir verði annarra verslana allan þann tíma. Sem stendur er Prís um 6% ódýrara en Bónus og Krónan að meðaltali og 10% ódýrara en Nettó.
Ýmsar vörur mátti finna þar umtalsvert ódýrari en í Bónus í nýjasta samanburði verðlagseftirlitsins. Þar ber að nefna:
- Merrild kaffi (899kr í Prís, 1159kr í Bónus)
- KEA kaffi- og vanilluskyr 500gr (459kr í Prís, 583kr í Bónus) og
- SS beikon í sneiðum (430kr í Prís, 529kr í Bónus).
Verðmunur getur á einstökum vörum getur verið allt að 22-28% milli verslananna svo innkaupakarfan getur verið mun ódýrari ef vel hittir á.
Verðmunur milli Prís og Krónunnar getur orðið allt að 58% á einstökum vörum en má þar nefna Ömmu flatkökur sem kosta 275 krónur í Krónunni borið saman við 174 krónur í Prís.
Lista yfir fleiri vörur má finna í lok fréttarinnar.
Opnun Prís hafði áhrif á vöruverð víða
Við opnun Prís voru mörg dæmi um verðbreytingar hjá helstu samkeppnisaðilum strax á fyrstu dögum. Eins og sjá má á grafinu að ofan hefur þó lítið breyst í stóru myndinni undanfarna mánuði. Þó hafði opnun Prís ein eftirtektarverð áhrif. Í Krónunni lækkuðu verð á þeim vörum sem ekki fundust í Bónus þegar Prís mætti til leiks.
Þessar breytingar eru vísbending um að annað hvort hafi Krónan haft aðeins hærri verð á þeim vörum sem Krónan og Bónus voru ekki í samkeppni um, eða þá að Krónan hafi frekar treyst sér til að keppa við Prís en við Bónus í ágúst í fyrra.
Verðsamanburður við Prís
Hægir á verðhækkunum dagvöru í júlí og ágúst
Verðlag á matvöru hækkaði um 0,1% milli júní og júlí og verðathuganir fyrripart ágúst benda til þess að verðlag á dagvöru hafi að mestu staðið í stað milli júlí og ágúst. Er um nokkurn viðsnúning að ræða frá tímabilinu febrúar til júní þegar meðalhækkunin nam 0,6%.
Líkt og fyrr segir hækkaði verðlag í dagvöru um 0,1% milli júní og júlí, eða um 0,3% ef aðeins eru skoðaðar matar- og drykkjarvörur. Vörur frá Nóa Síríus hækkuðu enn, til dæmis hækkaði 240gr poki af Nóa kroppi um 13% í Bónus milli júní og júlí. Nóa súkkulaðiperlur hækkuðu um 17% í Hagkaup, hvítir og konsúm súkkulaðidropar hækkuðu um 12% í Krónunni og um 13% í Nettó og svo mætti lengi telja.