ASÍ telur lög um skammtímaleigu húsnæðis til ferðamanna ganga of skammt

Höfundur

Ritstjórn

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur fyrirliggjandi frumvarp um breytingu á lögum til að bregðast við auknu umfangi skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna ekki ganga nógu langt.

Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr.85/2007. Markmið laganna er að draga úr framboði á íbúðarhúsnæði  til handa ferðamönnum í skammtímaleigu sem ýtt hefur undir þenslu á húsnæðismarkaði og dregið úr framboði húsnæðis til langtímaleigu.

Í umsögninni er bent á að frumvarpið gangi mun skemur í takmörkun á skammtímaleigu en í mörgum borgum Evrópu sem glímt hafi við sambærilegan vanda.

Í umsögninni segir:

„Að mati ASÍ hefði þurft að taka stærri skref sem myndu hafa mæta þeim bráðavanda sem nú ríkir á húsnæðismarkaði.“

Þrátt fyrir þessa gagnrýni lýsir Alþýðusambandið yfir stuðningi við frumvarpið og hvetur til þess að það verði að lögum.

Heimagisting endurskilgreind og rekstrarleyfi tímabundin

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum sem felast einkum í tvennu. Annars vegar er heimagisting endurskilgreind og afmörkuð við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign í eigu viðkomandi utan þéttbýlis. Hins vegar eru rekstrarleyfi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis gerð tímabundin til fimm ára.

ASÍ fagnar áformum um að þrengja að heimagistingu en telur að lengra hefði þurft að ganga hvað varðar rekstrarleyfi í íbúðarhúsnæði. Rakið er hvernig aukning á skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis í atvinnurekstrarskyni, bæði á vegum einstaklinga og lögaðila, hafi aukið ásælni fjárfesta í íbúðarhúsnæði, dregið úr framboði þess og ýtt undir þenslu á húsnæðismarkaði.

Í umsögninni segir að eðlilegt væri að fella niður útgefin rekstrarleyfi eða stytta fimm ára tímabindinguna verulega.

Hér má nálgast umsögnina í heild.

Tengdar fréttir

  • Alþýðusambandið styður almenna skráningarskyldu leigusamninga

    Alþýðusambands Íslands (ASÍ)  fagnar  fyrirhuguðum breytingum á lögum þar sem…

    Ritstjórn

    17. okt 2025

  • Rang­færslur Við­skiptaráðs

    Viðskiptaráð hélt áfram sókn sinni gegn húsnæðisöryggi og viðráðanlegum húsnæðiskostnaði…

    Finnbjörn A. Hermannsson

    19. jún 2025

  • Vind­högg Við­skipta­ráðs

    Nærri áratugi eftir að lög um almennar íbúðir tóku gildi…

    Finnbjörn A. Hermannsson

    13. jún 2025