Forseti ASÍ segir niðurskurð ríkisstjórnar bitna á láglaunafólki

Höfundur

Ritstjórn

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, (ASÍ) gagnrýndi niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni á formannafundi sem haldinn var í Reykjavik í dag, þriðjudaginn 21. október. Finnbjörn lýsti yfir áhyggjum af frekari markaðsvæðingu auðlinda og spurði hvernig breytingar í orkumálum hefðu komið almenningi í landinu til góða.

Finnbjörn gerði að umtalsefni niðurskurð þann sem áformaður er samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Hann nefndi eftirfarandi atriði:

  • Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verður stytt um 12 mánuði og reglur um ávinnslu þrengdar.
  • Fjárhæðir í barnabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur við barnafjölskyldur rýrnar að raungildi. 
  • Fjárhæðir í húsnæðis- og vaxtabótakerfinu haldast óbreyttar og stuðningur vegna húsaleigu og vaxtakostnaðar rýrnar að raungildi.
  • Sérstökum aðhaldsráðstöfunum upp á 3,8 milljarða króna verður hrundið í framkvæmd í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþáttaka sjúklinga verður aukin.
  • Framlög til framhaldsfræðslu og íslenskukennslu verða lækkuð. 

Sagði Finnbjörn við blasa að „hagræðingaraðgerðir“ þessar væru hreinn niðurskurður sem koma myndu af mestum þunga niður á lágtekjufólki, leigjendum og innflytjendum.

„Minnumst þess að þetta eru pólitískar ákvarðanir, þetta eru mannanna verk,“ sagði hann.  

Ekki á stjórnvöld treystandi

Hann gerði breytingar á atvinnuleysistryggingum að sérstöku umfjöllunarefni og sagði styttingu bótatímabils um 12 mánuði vissulega geta komið til álita. Hins vegar væri óstöðugleikinn í íslensku efnahags- og atvinnulífi slíkur að þörf væri á svo löngu tímabili sem raun bæri vitni. Að auki hefði opinn og sveigjanlegur vinnumarkaður á Íslandi í för með sér að girðingar vegna uppsagna væru lágar og lægri en almennt tíðkuðust í nágrannaríkjum. 

Þá sagði Finnbjörn að lenging ávinnslutíma réttinda væri óásættanleg.

Hann sagði reynslu verkalýðshreyfingarinnar á þessum vettvangi ekki góða og nefndi að ríkisstjórnir hefðu í gegnum tíðina jafnan horft til niðurskurðar á þessu sviði. „Við getum ekki treyst á að stjórnvöld grípi til viðeigandi vinnumarkaðsaðgerða þegar harðnar á dalnum. Reynsla okkar er ekki sú. Við getum ekki átt allt okkar undir velvild stjórnvalda hverju sinni,“ sagði forsetinn.

Finnbjörn gagnrýndi framgöngu Seðlabanka Íslands vegna tregðu til að lækka stýrivexti og minnti á að samið hefði verið um litlar launahækkanir til að vinna á verðbólgu. Þá hjöðnun sem orðið hefði væri að rekja til framgöngu verkalýðshreyfingarinnar. Gagnrýndi hann fyrirtæki fyrir verðhækkanir langt umfram tilefni sem gert hefðu glímu við verðbólgu erfiðari en ella. 

Markaðsvæðing orku ekki í þágu almennings

Forsetinn lýsti yfir áhyggjum af þróun raforkumála í landinu og sagði hagsmunaöfl stefna að frekari markaðsvæðingu auðlinda Íslendinga sem hafist hefði með tilskipun Evrópusambandsins árið 2003.

Um raforkuna sagði Finnbjörn:

„Frá því ég tók við embætti forseta Alþýðusambandsins hef ég ítrekað borið upp eftirfarandi spurningar:

Hvernig hefur sú markaðsvæðing sem þegar hefur farið fram á sviði orkumála komið þjóðinni til góða?

Og í framhaldinu – dettur einhverjum í hug að þessar breytingar séu gerðar til að bæta hag heimilanna í þessu landi?

Hvers vegna taka stjórnvöld ekki tillit til sérstöðu íslensks raforkumarkaðar við mótun lagaumgjarðar?

Við þessum spurningum hef ég engin svör fengið.“

Sagði hann hagsmunaöfl stunda grimman „lobbýisma“ á alþingi og víðar og ljóst væri að þau horfðu jafnan til langtímamarkmiða. 

„Sterk sérhagsmunaöfl hér á landi ásælast orkuna, landið, vatnið, vindinn, jarðvarmann. 

Ég tel vaxandi líkur á að tekist verði á af hörku um þessar auðlindir þjóðarinnar í náinni framtíð.  

Við verðum að halda vöku okkar,“ sagði Finnbjörn. 

„Skiptum ekki þjóðinni í tvennt“

Hann ræddi einnig niðurstöður nýrrar könnunar Vörðu-rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins á stöðu launafólks og sagði þær leiða í ljós að um 70% byggju við góð eða viðunandi kjör og því bæri að fagna. Hins vegar sýndi könnunin að um 30% launafólks byggju við raunverulegan skort. Hann minnti á þá áherslu sem lögð hefði verið í kjarasamningum að hækka lægstu launin og sagði ljóst að hvergi mætti hvika frá því markmiði að bæta kjör þeirra hópa. „Þetta er ákall til okkar um að skipta ekki þjóðinni í tvennt. Við getum ekki skilið 30% eftir þannig að þau hafi tæpast til hnífs og skeiðar,“ sagði hann. 

Tengdar fréttir