Vinnumarkaður sýnir merki um kólnun og líkur eru á auknu atvinnuleysi úr árið 2027. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri hagspá Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Fram kemur að hægt hafi á fjölgun starfa sem mældist 0,5% í ágúst borið saman við 1,8% vöxt í sama mánuði árið 2024. og atvinnuleysi hefur farið vaxandi undanfarin misseri. Tekið er fram að nýjustu tölur um fjölda starfandi samkvæmt skrám nái hins ekki yfir gjaldþrot lággjaldaflugfélagsins Play en fleiri mælikvarðar bendi til sömu þróunar.
Atvinnuleysi verður 4,5% á þessu ári en því er spáð að það aukist í 4,9% á árinu 2026. Helstu áhrifaþættir eru taldir minni umsvif í ferðaþjónustu og samdráttur á byggingamarkaði.
Framleiðslustöðvun Norðuráls
Í lok október tilkynnti Norðurál um framleiðslustöðvun í kjölfar bilunar í rafbúnaði álversins. Afköst verksmiðjunnar verða því minni um ófyrirséðan tíma. Spá ASÍ var breytt með hliðsjón af því fyrir útgáfu. Varfærið mat hagfræði- og greiningarsviðs er að útflutningur áls dragist saman um 20%, frá síðasta ársfjórðungi 2025 til og með fyrsta ársfjórðungs 2026, samanborið við fyrri horfur.
Breyttar forsendur um álútflutning hafa ekki teljanleg áhrif á spáð atvinnuleysi þessa árs (4,5%), en horfur næsta árs voru færðar upp um 0,2 prósentustig; úr 4,7 í 4,9 prósent. Teygist framleiðslustöðvunin fram á þriðja ársfjórðung 2026 má vænta 5 % atvinnuleysis það árið.





