Gerviverktaka – má bjóða þér lægri laun?

Höfundur

Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir

Gerviverktaka á sér ýmsar birtingarmyndir og hefur verið nokkuð í umræðunni. Í einhverjum tilvikum er hún byggð á misskilningi, en í alltof mörgum er hún aðferð til að minnka kostnað og ábyrgð atvinnurekenda með því að færa hann yfir á launafólk. Gerviverktaka felur þannig í sér blekkingu þar sem atvinnurekandi nýtir sér laka samningsstöðu og réttleysi þess sem hann ræður í vinnu. Ef þjónusta eða vara er grunsamlega ódýr, þá er á því skýring. Einhver borgar fyrir það með réttindaleysi sínu, oft undir hatti gerviverktöku.

Launasamband og verktaka

Meginþorri vinnandi fólks hér á landi hefur í gegnum tíðina verið í hefðbundnu ráðningarsambandi og ber réttindi og skyldur í samræmi við það. Með tíð og tíma hafa grunnréttindi verið tryggð í kjarasamningum, svo sem rétt til veikindadaga, orlofs, öryggis og fyrirsjáanlegra kjara. Þetta eru réttindi sem eiga að vera það sjálfsögð að við þurfum sjaldan að hugsa út í þau. Þannig á stöðugur og sanngjarn vinnumarkaður að virka.

Auk ráðningarsambands er fjöldi fólks sem starfa sem verktakar. Það vinnuform stendur á allt öðrum grunni og hefur sinn réttmæta tilgang þegar einstaklingur vinnur raunverulega sjálfstætt og ber sjálfur ábyrgð á framkvæmd verka.

Á undanförnum árum hefur verið gerð tilraun til að mynda grátt svæði á milli þeirra. Þar hefur gerviverktakan fest sig í sessi.

Hvað sker á milli?

Það er ekki sjálfval samningsaðila að ákveða hvort samband sé launasamband eða verktaka, það þarf að meta heildstætt hverju sinni. Spurningin sem þarf að svara er hvort sá sem  sinnir starfinu sé raunverulega sjálfstæður í starfi?

Við mat á þessu þarf m.a. að líta  til þess:

  • hver stjórnar framkvæmd verks, verklagi, reglum og vinnutilhögun,
  • hver útvegar búnað, tæki og aðstöðu,
  • hvort unnt sé að senda annan í sinn stað,
  • hver ber áhættu og fjárhagslega ábyrgð,
  • og hvort mikill aðstöðumunur aðila einkennir sambandið.

Rafrænir vettvangar sem stýra öllu en bera enga ábyrgð

Störf sem áður byggðu á beinu sambandi milli fólks og atvinnurekanda eru nú í auknum mæli unnin í gegnum rafræna vettvanga. Slíkir vettvangar eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Flestir þeirra eru kynntir sem tæknilausn sem „tengi saman fólk“. Í reynd hafa þó margir þeirra mikið vald yfir starfinu: ráða hver fær verkefni, hvenær og á hvaða kjörum, og setja reglur sem sá sem sinnir starfinu hefur enga möguleika á að semja um. Tekjurnar sveiflast síðan eftir aðstæðum sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á. Þrátt fyrir þetta eru einstaklingarnir sagðir vera verktakar og látnir taka á sig alla áhættu sem atvinnurekendur báru áður, allt undir gylliboðum um sveigjanleika í starfi og „samkeppnishæfrar tekjuöflunar“.

Hvaða hagsmuni hafa atvinnurekendur af gerviverktöku?

Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikill sparnaður fyrirtækja er af gerviverktöku, enda réttindi og aðstæður mismunandi. Hægt er að skipta sparnaðinum gróflega í þrjá flokka: engin lögbundin gjöld greidd, engin réttindi samkvæmt kjarasamningum virt og útlagður kostnaður í lágmarki.

Fyrirtækin sem ganga lengst í þessu hafa samnings- og lögbundin réttindi af starfsfólki sínu einfaldlega með því að láta einstaklinginn bera þau gjöld og skyldur sem lög og kjarasamningar leggja annars á herðar atvinnurekanda. Sparnaðurinn getur orðið allt upp undir 80% í verstu tilvikum. Þau fyrirtæki sem stunda slíkt athæfi vinna ekki aðeins gegn launafólki, heldur vinna þau gagngert gegn heilbrigðri samkeppni fyrirtækja í landinu.

Áhrif á þann sem sinnir starfi í gerviverktöku

Ein einföld reikniæfing sýnir hversu alvarlegt þetta getur orðið:

Einstaklingur fær 4.800 kr. greiddar fyrir hverja unna klukkustund. Hann þarf að standa skil á iðgjaldi í lífeyrissjóð, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti.  Auk þess ef litið er til kjarasamningsbundins réttar, þarf að taka mið af veikindarétti, veikindarétti vegna barna, orlofs- og desemberuppbótum, eftir atvikum taka tillit til greiðslna utan hefðbundins dagvinnutíma, orlofi, greiðslum fyrir vinnufatnað og öryggisbúnað, iðgjöld í sjúkrasjóð, endurhæfingasjóð, slysatryggingu og ábyrgðartryggingu, notkun á bifreið eða vinnutækjum o.fl.

Þegar tekið hefur verið tillit til þessara þátta má áætla að tekjur hans séu komnar niður í 1.450 kr. á klst. áður en svo er reiknaður almennur tekjuskattur og önnur lögbundin gjöld af tekjum hans. Lágmarkslaun í dag eru samkvæmt lægstu töxtum aðildarfélaga ASÍ: 2.609,72 kr. á klst. í dagvinnu og 4.697,58 kr. á klst. í yfirvinnu.

Hann fær því 55% af lægstu launum á dagvinnutíma og 31% á yfirvinnutíma, m.v. að viðkomandi noti eigin bifreið og  vinnubúnað við störf sín.

Við skulum ekki láta blekkjast

Gerviverktaka er ekki merki um framfarir undir hatti nýsköpunar eða tækniþróunar, heldur birtingarmynd þess hvernig ábyrgð er færð frá fyrirtækjum og niður til þeirra sem hafa sístu samningsstöðuna. Hún grefur undan réttindum sem hafa orðið til í áratugalangri baráttu og skilur fólk eftir með alla áhættuna, óvissuna og oft laun sem eru langt undir lágmarksviðmiðum. Við getum ekki leyft þessari þróun að verða viðmið og hverfa aftur til þess tíma þegar kjör og réttindi launafólks voru alfarið eftir hentisemi atvinnurekenda.

Tengdar fréttir

  • Atvinnuleysi á Íslandi – niðurstöður vinnumarkaðsskýrslu  

    Í nýrri skýrslu ASÍ, Íslenskur vinnumarkaður 2025, er fjallað ítarlega…

    Steinunn Bragadóttir

    3. nóv 2025

  • ASÍ telur líkur á auknu atvinnuleysi

    Vinnumarkaður sýnir merki um kólnun og líkur eru á auknu…

    Ritstjórn

    31. okt 2025

  • Frumvarp um atvinnuleysistryggingar illa ígrundað, gallað og gerræðislegt

    Alþýðusamband Íslands telur að frumvarp um breytingar á lögum um…

    Ritstjórn

    30. okt 2025