13. 01.26
Þrátt fyrir miklar framfarir í menntun, verulegan árangur í baráttu gegn fátækt og aukna framleiðni á síðustu 30 árum hamlar rótgróinn ójöfnuður, takmarkað traust til stofnana og ófullnægjandi árangur á nokkrum lykilsviðum framrás félagslegs réttlætis um heim allan. Þetta er helsta niðurstaða nýrrar skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO).
Skýrslan kallast Staða félagslegs réttlætis: Sífelluverkefni (e. The state of social justice: A work in progress) og var birt í nóvember er önnur félagsmálaráðstefna Sameinuðu þjóðanna fór fram með fundi heimsleiðtoga í Doha. Um leið var þess minnst að 30 ár eru liðin frá fyrstu félagsmálaráðstefnunni sem fram fór í Kaupmannahöfn árið 1995.
Ríkari, heilbrigðari og betur menntuð
Í skýrslunni segir að þótt heimsbyggðin sé að sönnu ríkari, heilbrigðari og betur menntuð en árið 1995 hafi ávinningnum verið mjög misskipt. Kyrrstaða ríki nú í stað þess árangurs sem áður hafi náðst hvið að draga úr ójöfnuði.
Á meðal þess árangurs sem viðleitni þessi hefur skilað frá 1995 nefna skýrsluhöfundar að helmingi lægra hlutfall barna á aldrinum 5–14 ára stundi nú vinnu (úr 20 í 10 prósent), algjör örbirgð hefur minnkað úr 39 í 10 prósent og hlutfall þeirra sem ljúka grunnskóla hefur hækkað um 10 prósentustig. Í fyrsta skipti í sögunni hefur yfir helmingur jarðarbúa aðgang að félagslegri aðstoð.
Enn er langt í land
Skýrslan dregur þó fram skýra og viðvarandi veikleika:
- 71 prósent tekna einstaklings ræðst enn af aðstæðum við fæðingu viðkomandi, svo sem landi og kyni;
- óformleg atvinna hefur aðeins dregist saman um tvö prósentustig á tveimur áratugum og hana stunda enn um 58 prósent launafólks;
- kynjamunur í þátttöku á vinnumarkaði hefur aðeins minnkað um þrjú prósentustig síðan 2005 og stendur enn í 24 prósentum;
- miðað við núverandi þróun mun taka heila öld að eyða launabili kynjanna á heimsvísu.
Óréttlæti grefur undan samfélagstrausti
Traust til stofnana hefur farið dvínandi um allan heim frá árinu 1982. Þessi staðreynd er sögð endurspegla vaxandi gremju sökum þess að fólki sé ekki umbunað fyrir vinnuframlag sitt með sanngjörnum hætti. ILO varar við því, að verði ekki gripið til aðgerða til að styrkja samfélagssáttmálann kunni minnkandi traust að grafa undan lögmæti lýðræðiskerfa og alþjóðlegri samvinnu.
Niðurstöður ILO kallast á við djúpstæðar samfélagsbreytingar. Umhverfisþættir, stafrænar og lýðfræðilegar breytingar endurmóta nú vinnumarkaði víða með fordæmalausum hraða. Án markvissrar stefnumótunar gætu þessar umbreytingar aukið ójöfnuð. Með réttum aðgerðum – þar á meðal fjárfestingum í færni, félagslegri vernd, sanngjörnum launakerfum og virkri vinnumarkaðsstefnu – geta þær hins vegar orðið drifkraftar þátttöku og þrautseigju, segir í skýrslunni.
Félagslegt réttlæti verði kjarni allrar stefnumótunar
Í skýrslunni er hvatt til tafarlausra aðgerða í því skyni jafna tækifæri manna og tryggja sanngjarnari skiptingu efnahagslegs ávinnings. Þá sé mikilvægt að stjórn verði náð á stafrænum og lýðfræðilegum umbreytingum þannig að enginn verði skilinn eftir. Höfundar leggja áherslu á að félagslegt réttlæti verði kjarni allrar stefnumótunar – í fjármálum og iðnframleiðslu, heilbrigðis og loftslagsmálum. Efla beri samvinnu stjórnvalda, alþjóðastofnana og aðila vinnumarkaðarins til að tryggja samræmd viðbrögð við hnattrænum áskorunum.
„Félagslegt réttlæti er ekki aðeins siðferðileg skylda – það er nauðsynlegt fyrir efnahagslegt öryggi, félagslega samheldni og frið. Heimsbyggðin hefur náð óumdeilanlegum árangri en við getum ekki horft fram hjá því að milljónir manna eru enn útilokaðar frá tækifærum og mannlegri reisn í starfi,“ segir Gilbert F. Houngbo, framkvæmdastjóri ILO.
Hraða þarf aðgerðum og efla samvinnu
ILO er í forystu Hnattrænnar hreyfingar í þágu félagslegs réttlætis (e. Global Coalition for Social Justice). Á þeim vettvangi koma saman stjórnvöld, samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög og aðrir samstarfsaðilar til að hraða aðgerðum og efla samvinnu í því skyni vinna félagslegu réttlæti og mannsæmandi vinnu fyrir alla.





