Norrænar verkalýðshreyfingar lýsa yfir stuðningi við Grænlendinga

Höfundur

Ritstjórn

Norræna verkalýðssambandið (NFS) lýsir yfir fullum stuðningi við Landsamband verkalýðsfélaga á Grænlandi (SIK) og grænlensku þjóðina vegna þeirra yfirlýstu áforma ríkisstjórnar Donalds Trumps að færa Grænland undir stjórn Bandaríkjanna. Hér fer á eftir yfirlýsing NFS:

„Enn á ný hefur ríkisstjórn Trumps viðrað þá ætlun sína að taka yfir stjórn Grænlands. Og enn á ný hefur grænlenska þjóðin staðfest einarðlega vilja sinn til að ráða eigin framtíð – án utanaðkomandi þrýstings eða hótana.

Norræna verkalýðshreyfingin lýsir yfir fullum stuðningi við og samstöðu með aðildarsamtökum okkar, Landsambandi verkalýðsfélaga á Grænlandi (SIK), og  grænlensku þjóðinni. Grænland er órjúfanlegur hluti af norrænu samfélagi og íbúar þess hafa óumdeilanlegan rétt til að ákveða eigin framtíð. Það felur meðal annars í sér grundvallarréttinn til að lifa í öryggi, laus við utanaðkomandi þrýsting eða hótanir.

Engu ríki er heimilt að skipta sér af sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga. Allar tilraunir til að hafa áhrif með ógnunum og þvingunum, eða með efnahagslegum eða pólitískum þrýstingi, eru óásættanlegar.

Forseti SIK, Jess Berthelsen, hefur undirstrikað mikilvægi þess að bregðast við utanaðkomandi þrýstingi með nánara samstarfi við Danmörku á grundvelli jafnræðis. Í grein í grænlenska dagblaðinu Sermitsiaq sagði hann:

„Nú verða stjórnmálamenn okkar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja landið og ekki síst íbúana, og það á að gera með enn nánara samstarfi við Danmörku, að sjálfsögðu á grundvelli gagnkvæmrar virðingar.“

Vilji grænlensku þjóðarinnar hefur verið skýr og ótvíræður. Fjölmenn mótmæli gegn erlendum afskiptum hafa sýnt almennan stuðning við fullveldi, reisn og lýðræðislegt val grænlensku þjóðarinnar. Afstaða almennings er skýr og afdráttarlaus: samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja 85% Grænlendinga áfram vera hluti af danska ríkjasambandinu. Aðeins 6% hafa lýst yfir vilja til að verða hluti af Bandaríkjunum.

Norræna verkalýðshreyfingin hvikar hvergi í stuðningi sínum við Grænlendinga. Við munum áfram styðja rétt grænlensku þjóðarinnar til að feta sina framtíðarbraut og njóta virðingar sem jafngildir aðilar í alþjóðasamfélaginu.“

Tengdar fréttir

  • Miðstjórn ASÍ fordæmir ólögmæta hernaðaraðgerð Bandaríkjanna í Venesúela

    Miðstjórn ASÍ fordæmir ólögmæta hernaðaraðgerð Bandaríkjanna í Venesúela. Aðgerðin felur…

    Ritstjórn

    7. jan 2026

  • Hver borgar fyrir heimsendinguna? 

    Heimsendingaþjónusta hefur aukist jafnt og þétt hérlendis sem og erlendis.…

    Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir

    22. des 2025

    Wolt merki
  • Af hverju skiptir lífeyriskerfið máli fyrir ungt fólk?

    Eftir umfjöllun Kveiks um ásækni í séreignarlífeyri ungmenna er eðlilegt…

    Svanfríður Bergvinsdóttir

    19. des 2025