Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna opnunar Grindavíkur

Höfundur

Ritstjórn

Á fundi sínum í dag, miðvikudaginn 21. febrúar 2024, samþykkti miðstjórn Alþýðusambands Íslands eftirfarandi ályktun:

Vegna þeirrar ákvörðunar yfirstjórnar lögreglu að heimila á ný starfsemi fyrirtækja í Grindavík leggur miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) áherslu á eftirfarandi: 

Miðstjórn hvetur til þess að ítrustu öryggiskröfum verði fylgt í hvívetna og í engu verði hvikað frá lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Miðstjórn hvetur yfirvöld og atvinnurekendur í Grindavík til að hafa fullt samráð í þessu skyni við verkalýðsfélög á hættusvæðinu.  

Miðstjórn leggur áherslu á að það starfsfólk fyrirtækja sem mætir til vinnu í Grindavík gerir það á ábyrgð viðkomandi atvinnurekenda. Þeim ber að sjá til þess að aðstæður ógni ekki öryggi starfsfólks og að það njóti allra viðeigandi trygginga við vinnu sína í Grindavík. Hið sama á við um ferðir starfsfólks til og frá vinnustað. 

Miðstjórn vekur athygli á að réttur þess starfsfólks sem treystir sér ekki til að vinna við ríkjandi aðstæður í Grindavík er skýr og óvéfengjanlegur. 

Miðstjórn minnir atvinnurekendur á að þeim er ekki fært að skylda fólk eða þrýsta á það með nokkrum hætti til að mæta til starfa í bænum sem ekki treysta sér á svæðið. Verði starfsfólk fyrir slíkum þrýstingi er það hvatt til að snúa sér til stéttarfélags síns.  

Í ljósi þess ástands sem ríkir í Grindavík eftir undangengnar náttúruhamfarir telur miðstjórn einboðið að efnt verði til víðtæks samráðs um öryggismál starfsfólks og að rödd þess fái einnig að hljóma við tilraunir til að endurreisa atvinnulíf í bænum við þessar einstöku og krefjandi aðstæður.  

 

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025