Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Nóbelsverðlaun í hagfræði – Hækkun lágmarkslauna fækkar ekki störfum

Þrír hagfræðingar fá Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir að sýna fram á að sú kenning frjálshyggjunnar að hækkun lágmakslauna þýði færri störf, er ekki byggð á staðreyndum. Niðurstöður rannsókna þremenninganna ganga þvert á ríkjandi hugmyndir sem byggðu á kenningum um að lægri laun myndu alltaf ýta undir fjölgun starfa.

Nóbelsverðlaunahafarnir David Card, Joshua Angrist og Guido Imbens fá verðlaunin fyrir framlag sitt til vinnumarkaðshagfræði og þróun aðferða við rannsóknir á orsakatengslum með notkun reynslugagna. Í tímamótarannsókn frá 1994 beittu David Card og Alan Krueger svokallaðri difference in difference aðferð til að rannsaka áhrif hækkunar lágmarkslauna á atvinnustig á skyndibitastöðum í New Jersey fylki árið 1992.

Ein áskorun við að skoða áhrif slíkra breytinga í raungögnum er að fleiri breytur og þættir gætu haft áhrif á atvinnustigið en þróun lágmarkslauna. Í rannsókn Card og Krueger voru því ekki einungis skoðuð áhrifin í New Jersey heldur var einnig horft á Pennsylvaníu fylki til samanburðar þar sem lágmarkslaunin voru ekki hækkuð.  Pennsylvanía, verandi sambærilegt fylki og á sama svæði, gat því gefið til kynna hvernig þróunin hefði orðið í New Jersey hefði hækkun lágmarkslauna ekki orðið að veruleika.

Hækkun lágmarkslauna fækkaði ekki störfum
Niðurstöður rannsóknar Card og Krueger voru að hækkun lágmarkslauna hafi ekki fækkað störfum á skyndibitastöðum í New Jersey. Í raun hækkaði hlutfall starfandi í New Jersey umfram Pennsylvaníu. Niðurstöðurnar voru þvert á ríkjandi hugmyndir þess tíma sem byggðu á kenningum um að lægri laun myndu alltaf ýta undir fjölgun starfa.

Í rannsókninni var einnig prófað fyrir fleiri breytum en bara ólíkum svæðum. Til viðbótar voru bornir saman þeir skyndibitastaðir sem greiddu lágmarkslaun og urðu því fyrir beinum áhrifum af lagabreytingunum við aðra staði sem greiddu laun yfir lágmarkslaunum og urðu ekki fyrir áhrifum af breytingunni. Niðurstöðurnar voru þær sömu og þegar borin voru saman ólík fylki, hækkun lágmarkslauna fækkaði ekki störfum.

Unnið gegn skaðlegum kenningum
Alþjóðaverkalýðshreyfingin hefur gert verðlaunin að fréttaefni á vef sínum þar sem Sharan Burrow forseti ITUC segir að rannsóknir verðlaunahafanna hafi unnið gegn skaðlegum kenningum um að baráttan fyrir sanngjörnum lágmarkslaunum leiði til fækkunar starfa. Segir Burrow að snúa þurfi við þeirri langtímaþróun minnkandi hluts launafólks í verðmætasköpun á heimsvísu.

Author

Tengdar fréttir