Formannafundur ASÍ – Ályktun um tilraunir til niðurbrots á verkalýðshreyfingunni

Höfundur

Ritstjórn

Formannafundur ASÍ fordæmir með öllu tilraunir til niðurbrots á skipulagðri verkalýðshreyfingu á Íslandi og varar sterklega við uppgangi gulra stéttarfélaga. Einkenni slíkra félaga er að þau eru undir áhrifavaldi atvinnurekenda, ýmist beint eða óbeint, sækja sér ekki styrk til heildarsamtaka launafólks heldur standa utan þeirra og gera aldrei ágreining í kjaradeilum. Slík félög eru þekkt fyrir að gera lakari kjarasamninga en frjáls og skipulögð verkalýðshreyfing og grafa þannig undan almennum launakjörum í landinu. Gríðarlegur munur er á lífskjörum almennings í löndum þar sem skipulögð verkalýðshreyfing hefur verið brotin á bak aftur annars vegar og í löndum þar sem verkalýðshreyfingin stendur styrkum fótum hins vegar. Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess munu standa hart gegn hvers konar tilraunum til að brjóta á bak skipulagða verkalýðshreyfingu, enda á verkalýðshreyfingin ríkan þátt í þeim lífsgæðum sem almenningur nýtur á Íslandi. Það er fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar að vinnandi fólk á rétt til launaðs sumarleyfis og þorri almennings hefur aðgengi að bæði heilbrigðisþjónustu og menntun.

Nýjasta dæmið um tilraunir til að fara gegn skipulagðri verkalýðshreyfingu eru samningar milli Play og hins Íslenska flugstéttarfélags sem ætlað er að móta ramma utan um kjör flugfreyja- og flugþjóna hjá flugfélaginu Play. Samningarnir kveða á um lakari kjör og réttindi en hafa þekkst á íslenskum vinnumarkaði og enn er á huldu hvort þeir hafa verið samþykktir af vinnandi fólki sem á allt sitt undir þeim, líkt og lög og leikreglur á vinnumarkaði gera ráð fyrir. Formannafundur ASÍ kallar einnig eftir því að Samtök atvinnulífsins og Samtök aðila í ferðaþjónustu fordæmi framgöngu Play og sendi út skýr skilaboð um að þessi háttsemi verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði.

Krafan er skýr: að Play gangi til kjarasamninga við það launafólk sem á að vinna samkvæmt þessum kjarasamningum, sá samningur verði lagður í dóm starfsfólks og þar með verði leikreglur á íslenskum vinnumarkaði virtar.

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um jólin 2025

    Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, afhenti Samhjálp styrk upp á…

    Ritstjórn

    12. des 2025

  • Útgáfufundur Kjaratölfræðinefndar 27. nóv

    Nýjasta skýrsla Kjaratölfræðinefndar verður kynnt í húsakynnum ríkissáttasemjara fimmtudaginn 27. nóvember…

    Ritstjórn

    27. nóv 2025

  • Eftirlitsfulltrúar í námsferð til Helsinki

    Starfsdagar eftirlitsfulltrúa Alþýðusambands Íslands og stéttarfélaganna fóru fram í Helsinki…

    Kristjana Fenger

    7. nóv 2025