Bjarg íbúðafélag lækkar leigu að meðaltali um 25 þúsund á mánuði

Höfundur

Ritstjórn

Í kjölfar nýlegrar endurfjármögnunar og endurskoðun rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík mun félagið um næstu mánaðarmót lækka leigu hjá 190 leigutökum félagsins. Mun meðalleiga hjá þessum leigutökum lækka um 14%, úr um 180.000 í 155.000.

Bjarg íbúðarfélag starfar án hagnaðarsjónamiða þar sem leiguverð endurspeglar raunkostnað við rekstur fasteigna félagsins. Breytingar á rekstrarkostnaði, opinberum gjöldum og fjármagnskostnaði hafa bein áhrif á leiguverð sem tekur breytingum í samræmi við þróun kostnaðar. Hvert verkefni er sjálfstæð kostnaðareining og eru því áhrif kostnaðarbreytinga mismunandi milli fasteigna félagsins.

Fasteignir á Akranesi og í Þorlákshöfn hafa einnig farið í gegnum endurfjármögnun og endurskoðun rekstrar. Endurfjármögnun þar hefur ekki áhrif á leiguverð að þessu sinni vegna breytinga öðrum rekstrarliðum. Leiguverð er engu að síður mjög hófstillt og töluvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 120 þúsund kr. á mánuði. Kemur það helst til vegna íbúðagerða, lægra lóðarverðs og hagstæðari skipulagsskilmála.

Bjarg íbúðafélag hefur unnið að fyrrgreindri endurfjármögnun með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og hafa lyktir þess máls leitt til fyrrgreindrar lækkunar á húsaleigu. Jafnframt hafa verið viðræður við stofnunina um endurfjármögnun á öðrum eignum félagsins á svipuðum forsendum en þær hafa tafist vegna innri fjármögnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Er von til þess að niðurstaða náist um það fljótlega þegar staða Húsnæðissjóðs skýrist.

Bjarg lítur á það sem forgangsverkefni að leita allra leiða til að halda áfram endurfjármögnun eigna félagsins og nýta styrkleika þess til að tryggja að allir leigutakar hjá því njóti þess vaxtalækkunarferlis sem hefur átt sér stað sl. misseri.

———-

Bjarg er húsnæðis sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Tengdar fréttir

  • Vel heppnað þing ASÍ-UNG

    ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var…

    Ritstjórn

    20. okt 2025

  • Skýrsla forseta ASÍ 2025 komin út

    Skýrsla forseta fyrir árið 2025 er að venju efnismikil og…

    Arnaldur Grétarsson

    17. okt 2025

  • ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

    Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins…

    Ritstjórn

    17. okt 2025