2,2% verðbólga í apríl

Höfundur

Ritstjórn

Hagstofan birti í morgun verðbólgumælingu fyrir apríl mánuð og er þar um fyrstu mælingu vísitölu neysluverðs frá því áhrifa Covid-19 fór að gæta í samfélaginu. Vísitala neysluverðs var 477,5 stig í apríl og hækkar um 0,48% frá fyrri mánuði. Vísitalan án húsnæðis var 407 stig og hækkaði um 0,57% milli mánaða. Verðbólga mælist því 2,2% á ársgrundvelli eða 1,9% ef litið er framhjá áhrifum húsnæðis.

Verðlag er sveiflukennt um þessar mundir en verðhækkun á matvöru hafði mest áhrif til hækkunar í apríl og er það í takt við vísbendingar úr nýlegri könnun Verðlagseftirlits ASÍ. Matvara hækkaði um 1,5% (áhrif á vísitölu 0,2%) og verð á nýjum bílum um 2,3% (0,12% vísitöluáhrif). Á móti lækkaði bensínverð um 4,6% milli mánaða (-0,15% vísitöluáhrif).

Sé rýnt nánar í verðlagsbreytingar, má sjá að verðhækkun á matvöru skýrist m.a. af hækkun á grænmeti og innfluttri matvöru. Verð á grænmeti hækkaði um 11% milli mánaða og verð á innfluttri mat- og drykkjarvöru án grænmetis um 2,5%. Verð á innlendri mat- og drykkjarvöru hækkaði hins vegar um 0,1% milli mánaða. Alls hækkaði dagvara um 1,4% milli mánaða. Þó nokkrir liðir breyttust lítið milli mánaða, má þar nefna aðra þjónustu sem hækkaði um 0,2% milli mánaða og opinbera þjónustu sem lækkaði um 0,1%. Húsnæði hækkaði um 0,3% en verð á bensíni lækkaði um 4,6%.

Verðbólgan mælist nú 2,2% og hækkar hún um 0,1 prósent milli mánaða. Heldur dró úr verðbólgu á síðasta ári, og er hún um prósentustigi lægri en í apríl á síðasta ári en verðbólga hefur verið undir markmiði  Seðlabankans á þessu ári. Líkt og við greindum frá í síðasta mánuði eru ekki miklar líkur á verðbólguskoti á næstu mánuðum. Þó má búast við að verðlagsþróun geti orðið sveiflukennd þar sem ákveðnir liðir muni hækka, t.d. innfluttar vörur en að aðrir muni breytast lítið sökum lítillar eftirspurnar og umsvifa, t.d. eldsneyti, hrávara og ýmis konar þjónusta.

Tengdar fréttir

  • Vel heppnað þing ASÍ-UNG

    ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var…

    Ritstjórn

    20. okt 2025

  • Skýrsla forseta ASÍ 2025 komin út

    Skýrsla forseta fyrir árið 2025 er að venju efnismikil og…

    Arnaldur Grétarsson

    17. okt 2025

  • ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

    Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins…

    Ritstjórn

    17. okt 2025