Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Verðlag á matvöru lækkar milli mánaða 

Verðlag á matvöru lækkar frá júlímánuði samkvæmt greiningu verðlagseftirlitsins, í fyrsta sinn frá undirritun kjarasamninga. Þessi þróun var komin vel á leið fyrir opnun nýrrar lágvöruverðsverslunar, Prís, um helgina. 

Verðlag í  Nettó, Kjörbúðinni og Krambúðinni hækkaði umtalsvert í júlí eins og verðlagseftirlitið benti á í nýlegri verðkönnun. Verðlag þar lækkaði hins vegar í  ágúst. Verðlag í Bónus hækkar lítillega frá fyrri mánuði og í  Hagkaup stóð það í stað milli mánaða. Sé litið yfir lengra tímabili sést að verðlag í Krónunni hefur frá undirritun kjarasamninga hækkað minna en í Bónus. 

 

Verðlækkanir í verslunum Samkaupa 

Frá undirritun kjarasamninga hefur hækkun á verðlagi matvöru verið 0,2-0,7% á mánuði. Óvenjumikil hækkun mældist á matvöru síðasta mánuði, um 0,7%. Skýrðist sú hækkun að mestu af hækkunum í verslunum Samkaupa. Nýjustu mælingar verðlagseftirlitsins benda til þess að verðlag hafi lækkað um 0,2%  milli júlí og þess sem af er ágústmánaðar. 

 

Verð í Nettó lækka í mörgum flokkum – mest hækka gæludýravörur, um 0,9%, en langflestir flokkar lækka, þeirra mest flokkur léttmjólkur, um 4,4%. 

 

Mestar verðhækkanir í Bónus frá kjarasamningum 

Yfir sumarmánuðina, frá maí til dagsins í dag, hefur verðlag hækkað mest í Bónus. Hástökkvari sumarsins í Bónus er Arla Havarti 300gr ostur, sem hefur hækkað um 67%. Aðrar vörur sem hafa hækkað mikið eru: 

  • Kiwi í lausu: 30% 
  • Hornafjarðar rauðar kartöflur, 1kg: 25% 
  • SFG gulrætur, 500gr: 25% 
  • Hellman’s dressing, 250ml: 24% 
  • Freyju Rís, 70gr: 22% 
  • Stjörnugrís grísasnitsel, kílóverð:  9,5% 

Þeir flokkar sem vega mest í verðlagshækkun Bónus yfir sumarið eru ávextir, kjöt, fiskur og sælgæti. 

 

Áhrif af Prís ekki komin fram 

Um helgina opnaði lágvöruverðsverslunin Prís. Samkvæmt fyrstu athugun verðlagseftirlitsins á opnunardegi var Prís með lægra verð en Bónus og Krónan í um 96% tilfella. Í yfir 10% tilfella var munurinn meira en 10% og í meira en fjórðungi tilfella yfir 5%. Samdægurs voru verð á MS ostum lækkuð í Bónus, niður að verðinu sem bauðst í Prís. 

Áhrifin af opnun Prís eru ekki komin fram nema að örlitlu leyti í vísitölum verðlagseftirlitsins, enda var verslunin opnuð í blálok tímabilsins sem hér er til skoðunar. 

Um könnunina 

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal. 

Við verðsamanburð eru skoðuð meðalverð sérhverrar vöru yfir mánuðinn (eða 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga) og borin saman við meðalverð mánuðarins á undan. Breytingar eru svo vegnar útfrá mikilvægi vöruflokka. Fjöldi samanburða í hverjum mánuði er um eða yfir 20.000. 

Author

Tengdar fréttir