Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Ávarp Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB á 46. þingi ASÍ

Forseti ASÍ, kæru félagar og aðrir gestir

Takk fyrir að bjóða mér að ávarpa þing ASÍ.

Mörg tengja hagsmunabaráttu heildarsamtaka á borð við ASÍ og BSRB eingöngu við kjarasamningsgerð og oft fer því minna fyrir umræðu um að meginhluti okkar starfa felst í því að tryggja lífsgæði félagsfólks aðildarfélaganna í víðum skilningi – s.s. í gegnum stuðningskerfi stjórnvalda, húsnæðisöryggi og sterkt velferðarkerfi.

 ASÍ byggir á aldargömlum grunni á sterkri sameiginlegri hugsjón fólks um að skapa betra samfélag. Í fyrstu lögum ASÍ sem sett voru árið 1916 segir að tilgangur sambandsins miði að því að bæta hag alþýðunnar bæði andlega og líkamlega. Ef við setjum þessi orð í samhengi við aðstæður þess tíma þegar launafólk naut nánast engra réttinda, né stuðnings stjórnvalda og samfélagið var gríðarlega fátækt sést hversu ótrúlega framsýnt þetta markmið var.

ASÍ hefur frá upphafi lagt áherslu á pólitík. Það má t.d. sjá í fyrstu málunum sem voru á dagskrá sambandsins: skattamál, bankamál, samvinnumál, sjávarútvegsmál, alþýðumenntun og fátækralöggjöf.

Það hefur verið styrkur heildarsamtaka okkar í áranna rás að við sameinumst um grunngildi sem hverfast um samstöðu, samtryggingu og samkennd. Við leggjum áherslu á félagslegt réttlæti, jöfnuð og jafnrétti. Stefnu um mennsku sem við sameinumst um þvert á stjórnmálaskoðanir eða ólíka stöðu okkar að öðru leyti. Höfum þetta í huga nú í aðdraganda kosninga þegar viðbúið er að gamall söngur hefjist,  um að við, samtök launafólks, séum að gerast pólitísk og eigum ekkert erindi í þá umræðu.

Við erum pólitísk – verkalýðspólitísk – höfum alltaf verið það og munum vonandi alltaf verða það. Það er kjarninn í okkar starfsemi að vera afl í þágu almennings. Að vera sterkar hreyfingar og skapa sterkt samfélag saman. Það er einmitt meginmarkmið okkar að stjórnmálaflokkarnir geri stefnur okkar að sínum. Og þannig byggjum við upp nýjan samfélagssáttmála.

Í síðustu kosningum lögðu allir stjórnmálaflokkar megináherslu á heilbrigðiskerfið en mörg kosningaloforðanna voru svo loðin að erfitt var að greina hvaða hugmyndafræði réði raunverulega ríkjum. Vildu þau byggja upp sterkt félagslegt kerfi eða átti að leysa málin með einkavæðingu? Þetta eru enn á ný þær grundvallarspurningar sem við verðum að beina til framboðanna – hvaða hugmyndafræði leggur grunn að stefnu þeirra í fjölbreyttum málaflokkum – standa þau fyrir samtryggingu eða einstaklingshyggju?

Kæru félagar,

Kannanir sýna að þau mál sem helst brenna á fólki í dag eru efnahagsmál, húsnæðismál og heilbrigðismál. Það er reyndar merkilegt að þær kannanir sem ég hef séð um þetta efni hafa ekki gert ráð fyrir að fólk geti valið jafnréttismál sem málaflokk sem brenni á þeim. Það er ekki síst áhugavert í ljósi þess að fyrir ári síðan kölluðum við til Kvennaverkfalls einmitt af þeirri ástæðu að aðgerðaleysi og ládeyða einkenndi jafnréttismálin. Kallinu var svarað með sögulegri samstöðu á stærsta útifundi sem haldinn hefur verið í Reykjavík og á 21 stað um landið allt. Konur og kvár tóku höndum saman og sögðu: Við bíðum ekki lengur eftir réttlæti. Þau sýndu með áþreifanlegum hætti fram á mikilvægi framlags þeirra til samfélagsins og lögðu niður launuð sem ólaunuð störf. Þetta er meðal annars afrakstur góðrar samvinnu ASÍ og BSRB ásamt á fjórða tug annarra samtaka. Og byltingin heldur áfram – við megum ekki stoppa – nú hafa tugir samtaka femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks aftur tekið höndum saman og leggja nú á ráðin um næstu skref. Við getum – þorum og viljum!

Efnahagsmálin hafa verið okkur ofarlega í huga vegna hárrar verðbólgu og vaxta. Þrengt hefur verulega að heimilunum, það fjölgar í þeim hópi sem ekki nær endum saman og stéttskipting eykst. Á sama tíma er fámennur hópur í samfélaginu sem græðir á þessu ástandi. Það blasir við okkur neyðarástand þegar horft er til félagslegrar stöðu fjölmennra hópa samfélagsins og félagslegra innviða. Tilfinningin er sú að ef ekkert verði aðhafst muni heilbrigðisþjónusta, menntakerfið og aðrir mikilvægir samfélagslegir innviðir keyra sig í þrot vegna skorts á fjármögnun og skilningsleysi stjórnvalda á mikilvægi samtryggingar.

Við höfum of lengi búið við stefnu stjórnvalda sem byggist á úreltum hagfræðikenningum sem leiðir til þess að verðmætunum frá heimilum og litlum fyrirtækjum er dreift til þeirra sem mestar eignirnar eiga, græða mest á nýtingu sameiginlegra auðlinda, finna minnst fyrir verðbólgunni og græða mest á háu vaxtastigi.

Þessi stefna hefur leitt til skattalækkana á þau ríkustu á meðan. Allt frá aldamótum, hafa verið gerðar aðhalds- og niðurskurðarkröfur til mikilvægra stofnana í heilbrigðis-, félagsþjónustu- og menntakerfinu með augljósum neikvæðum áhrifum á þjónustuna og þau sem þar starfa.

Það er ekki bara hér á landi sem mörg leitast við að svara spurningunum um hvað hafi farið úrskeiðis í samfélaginu – hvenær hafi verið farið útaf sporinu – hvers vegna fólki líði illa – hvers vegna dregið hafi úr félagslegri samheldni – hvers vegna ofbeldi sé að aukast.

Fjöldinn allur af rannsóknum sýna að ástæðan er efnahagsástandið og efnahagsstjórnin – að byggt hafi verið til lengri tíma á efnahagsstefnu sem þjónar ekki fólki heldur fjármagni. Að niðurskurður í velferðarþjónustu hafi neikvæð áhrif á líðan og auki veikindi. Að skýr tengsl séu á milli ójöfnuðar, slæmrar efnahagslegar og félagslegar stöðu annars vegar og þunglyndis, kvíða, félagslegs óstöðugleika og óróleika hins vegar. Að efnahagsmódelin séu úr sér gengin og að stundin sé nú runnin upp til að forgangsraða þannig að grundvallarkerfin verði styrkt.

Svarið felst þar af leiðandi ekki í að einblína á niðurgreiðslu skulda, eins og er svo oft er  haldið að okkur. Svarið felst í nauðsynlegum og tímabærum fjárfestingum í innviðum og fólki.

Verkefnið fram undan er því að endurhugsa tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga og skipta kökunni með réttlátari hætti.

Við verðum að gera þá kröfu til stjórnmálanna að áherslur þeirra snúist um fólk og lífsgæði þeirra – að fólk búi við frið, hafi fjárhagslegt sjálfstæði, sé öruggt, að komið sé fram við það af virðingu, það búi við jafnrétti og njóti mannréttinda. Að hér verði frábært að búa, starfa, ala upp börn, annast og styðja við ástvini, fara á eftirlaun og eldast. Fyrir öll en ekki bara sum.

Leiðin fram á við felst í samfélagslegri sátt um nýja efnahagsstefnu. Sátt um að skapa skuli mannsæmandi störf fyrir öll og dreifingu verðmæta í gegnum réttláta og framsækna skattastefnu. Þar sem félagslegar aðgerðir eru í forgrunni og niðurskurðarstefna heyrir sögunni til.

__

Kæru félagar,

Ef við lítum aftur til fyrstu kröfugöngunnar þann 1. maí fyrir 101 ári síðan er þar margt sem má sjá endurspeglast í kröfum nútímans.

Laun sem duga fyrir framfærslu, vinnan skapar auðinn og styttri vinnuvika eru kröfur sem við reisum í óbreyttri mynd enn þann dag í dag.

Atvinnubætur gegn atvinnuleysi, örorkutryggingar og slysatryggingar eru réttindi sem náðust síðar með gríðarlegri baráttu ASÍ félaga en það er viðvarandi verkefni að tryggja að þau nái markmiðum sínum.

Fyrir rúmlega 100 árum hljómuðu líka kröfur um byggingu Landspítala og heilnæmar og rúmgóðar íbúðir – ein krafan var beinlínis um mannabústaði! – sem í dag eru almennt á þann veg að tryggja þurfi jafnt aðgengi og framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir öll óháð efnahag eða búsetu en krafan um að öll njóti sjálfsagðra mannréttinda á borð við húsnæðisöryggi í heilsusamlegu húsnæði er óbreytt.

Á þessum tíma hafði bindindishreyfingin einnig þó nokkur áhrif á starfsemi stéttarfélaga og ein af kröfunum var því: Niður með vínsalana! Sú krafa rímar vel við kröfur nútímans um lýðsheilsu, um að stýra þurfi aðgengi að áfengi sem er besta leiðin til forvarna.

Allar þessar kröfur endurspegla að heildarhagsmunir voru settir framar sérhagsmunum.

Með harðri baráttu næstu árin og áratugina tókst forverum okkar að bæta líf þúsunda – og tryggja bjartari framtíð næstu kynslóða. Það veitir okkur innblástur fyrir okkar baráttu.

Þing ASÍ er mikilvægur vettvangur til að byggja upp  sameiginlega framtíðarsýn. Framtíðar þar sem hlustað er á kröfur vinnandi fólks, þar sem verkalýðshreyfingin stendur sterkari en nokkru sinni fyrr með tilheyrandi áhrifum á samfélag byggt á velferð, jafnrétti og jöfnuði.

Af því að við vitum sem er – að sterk hreyfing byggir upp sterkt samfélag fyrir öll.

Að lokum vil ég hvetja ykkur til framsækin og stórhuga í ykkar störfum hér á þingi ASÍ.

Takk fyrir og gangi ykkur allt að sólu.

Tengdar fréttir