Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Aðgerðir tengdar kjarasamningum taka gildi

Við gerð kjarasamninga gerði verkalýðshreyfingin kröfur á stjórnvöld um aðgerðir í þágu heimila. Þar má nefna kröfu um hækkun húsnæðisbóta, hækkun barnabóta og sérstakan vaxtastuðning til heimila. Í yfirlýsingu sem gefin var út samhliða kjarasamningum boðaði ríkisstjórnin að ráðist yrði í víðtækar aðgerðir til að bregðast við ákalli verkalýðshreyfingarinnar. Á undanförnum mánuðum hefur Alþingi haft til umræðu og afgreiðslu frumvörp tengt aðgerðunum og hafa nokkur þeirra þegar orðið að lögum. 

Sérstakur vaxtastuðningur ákvarðaður til framteljenda

Til að mæta aukinni vaxtabyrði heimila verður við álagningu ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur til framteljenda. Áætlað er að umfang stuðningsins verði um 5-7 milljarðar. 

Útreikningur vaxtastuðnings tekur mið af tekjum einstaklinga, vaxtagjöldum og eiginfjárstöðu. Stofn til útreiknings er 23% af vaxtagjöldum á lánum vegna íbúðahúsnæðis en stuðningur getur að hámarki orðið 150 þúsund hjá einhleypum, 200 þúsund hjá einstæðu foreldri og 250 þúsund hjá sambýlisfólki. Stuðningur skerðist með tekjum og eignastöðu. Fari nettó eign umfram 18 milljónir hjá einstaklingum eða 28 milljónir hjá sambýlisfólki dregst 0,5% af umfram eign frá stofni til útreiknings. Einnig skerðast tekjur um 4% fari þær umfram 6 milljónir á ári hjá einstaklingum eða 9 milljónir hjá sambýlisfólki. 

Sérstakur vaxtastuðningur er ekki greiddur út heldur er fjárhæðinni ráðstafað inn á lán einstaklinga. Einstaklingar þurfa að tilgreina inn á hvaða lán eigi að ráðstafa fjárhæðinni. Þetta geta þeir gert á þjónustuvef Ríkisskattsstjóra. Nánari upplýsingar má nálgast hér (https://www.skatturinn.is/einstaklingar/vaxtabaetur-og-barnabaetur/serstakur-vaxtastudningur/).

Aukin framlög til barnabóta

Alþingi samþykkti í lok apríl að gera breytingar á barnabótakerfinu, sem fólust í hækkun grunnbóta, hækkun skerðingarmarka og minni tekjuskerðingum í barnabótakerfinu. Markmið breytinganna var að fjölga þeim sem fá barnabætur. Lögin tóku strax gildi og koma til útreiknings við álagningu 2024 vegna tekna ársins 2023. 

Hægt er að reikna út hverjar barnabætur ársins eru á vef Ríkisskattstjóra (https://www.skatturinn.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-barnabota/). Sem dæmi fá hjón með sameiginlegar tekjur upp á 1,4 milljón á mánuði nú 35 þúsund krónur á mánuði í barnabætur eigi þau 2 börn, eitt undir 7 ára. Upphæðin á síðasta ári var um 12 þúsund á mánuði á síðasta ári. 

Húsnæðisbætur hækka um 25%

Húsnæðisbætur hækka um 25% og greiðast nú fyrir allt að 6 heimilismenn. Breytingarnar voru samþykktar þann 17. Maí á Alþingi og taka gildi 1. Júní. Áhrif breytinganna ráðast af fjölda heimilismanna og geta verið á bilinu 10 – 30 þúsund á mánuði eftir fjölskyldustærð. Hægt er að reikna út húsnæðisbætur á Ísland.is (https://island.is/umsokn-um-husnaedisbaetur/reiknivel)

Fleiri aðgerðir væntanlegar

Fleiri mál tengd aðgerðarpakka kjarasamninga eru til umræðu á Alþingi um þessar mundir. Ber þar að nefna breytingar á húsaleigulögum sem ætlað er að styrkja réttarstöðu leigjenda og frumvarp sem myndi auka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í uppbyggingu leiguhúsnæðis. Í aðgerðapakka stjórnvalda var einnig boðað aukið fjármagn í fæðingarorlofssjóð en fjárhæðir fæðingarorlofs höfðu verið óbreyttar frá árinu 2019. Við afgreiðslu myndi hámarks fjárhæðir fæðingarorlofssjóðs hækka í þremur þrepum  úr 600 þúsund á mánuði í 900 þúsund krónur. Á Alþingi er einnig til umræðu gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Stefnt er að því að ríkið fjármagni skólamáltíðir með árlegu framlagi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og geta sveitarfélög þá boðið upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með haustönn. 

Author

Tengdar fréttir