Iðnaðarmenn og verslunarfólk hafa samþykkt nýgerðan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA). Mikill stuðningur hefur komið fram við samninginn.
Hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur (VR) lauk rafrænni kosningu á hádegi í dag, miðvikudag. Kosningaþáttttakan reyndist tæp 25% og samþykktu 82% samninginn. Á kjörskrá voru 39.115 félagar í VR.
Jafnframt var í dag skýrt frá niðurstöðu atkvæðagreiðslu um kjarasamning við Félag atvinnurekenda. Var hann samþykktur með 85,17% greiddra atkvæða. Á kjörskrá um þennan samning voru 939 félagar í VR. Atkvæði greiddu 290 og var kjörsókn því 30,88%.
Félagar í Rafiðnaðarsambandinu samþykktu einnig kjarasamning við SA með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða; 73% tæknifólks og 77% sveina lýstu sig honum samþykk og hið sama gerðu 88% félaga í Grafíu.
VM Félag vélstjóra og tæknimanna samþykkti samninginn með 76,58% greiddra atkvæða. Andvíg voru 18,79% og 4.63% tóku ekki afstöðu.
Félagar í Verkalýðsfélagi Grindavíkur samþykktu samninginn við SA með 83,67% greiddra atkvæða. Nei sögðu 8,37% og tæp 8% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 839. Atkvæði greiddi 251 eða 29,9%
100% á Akureyri
Hjá Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni (FVSA) greiddu 27,45% félagsmanna atkvæði. Samninginn við SA samþykktu 90,82% þeirra sem kusu. Tæp 8% lýstu sig honum andvíg. Jafnframt greiddu félagsmenn atkvæði um samning við Félag atvinnurekenda og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Alls voru 36 félagsmenn FVSA á kjörskrá um þennan samning og var kjörsókn 44,44%.